Vinnsla kindakjöts hér á landi heldur áfram að minnka, að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofunnar, og er nú svo komið að álíka mikið er framleitt af alifuglakjöti og kindakjöti.

Framleiðsla á kindakjöti var ríflega fjögur tonn í september síðastliðnum sem er fjórum prósentum minna en í sama mánuði á síðasta ári.

Nautakjötsvinnsla minnkaði ívið minna, svínakjötsframleiðsla stóð svo til í stað en fimm prósenta aukning var á vinnslu alifuglakjöts á þessu tímabili.

Þróunin er nokkuð augljós í þessum efnum. Kindakjötsframleiðsla nam tæplega þrettán þúsund tonnum um miðjan níunda áratug síðustu aldar en er nú komin niður í níu þúsund tonn.

Á sama tíma hefur framleiðsla alifuglakjöts farið úr tæplega tvö þúsund tonnum upp í nálega tíu þúsund tonn og er við það að toppa kindakjötsvinnsluna.

Framleiðsla nautakjöts hefur tvöfaldast á þessu tímaskeiði og stendur nú í tæplega fimm þúsund tonnum, rétt eins og svínakjötsvinnsla sem farið hefur úr rúmum þremur þúsund tonnum í vel ríflega sex þúsund tonn.

Hrossakjöt rekur hér lestina en framleiðsla þess hefur haldist jöfn í kringum eitt þúsund tonn á þessum tíma.