Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segist algjörlega sannfærður um að kerfisbundinn rasismi sé ekki vandamál innan lögreglunnar hér á landi. Fréttablaðið ræddi við Jón að loknum ríkisstjórnarfundi nú fyrir skemmstu.
Jón segist hafa átt samtöl við ríkislögreglustjóra vegna máls hins 16 ára gamla pilts sem lögreglan hugðist handtaka í tvígang, vegna gruns um að hann væri tvítugi strokufanginn Gabríel Douane Boama, sem nú hefur verið handtekinn.
„Við sammæltumst um að hittast og fara yfir þetta mál. Þetta er ákaflega óheppilegt eins og ég hef sagt, að þetta skuli hafa komið upp, með þennan unga mann, gagnvart honum og fjölskyldu hans, sem maður hugsar til. Þetta var óskemmtileg lífsreynsla fyrir þau að lenda í,“ segir Jón.
„Hitt er svo annað, að lögreglan var auðvitað við erfiðar aðstæður að leita að stórhættulegum manni. Það er hennar verkefni að gæta borgaranna og ég bið líka um skilning á því að lögreglumenn hafa örugglega ekki verið að leika sér að þessu, heldur verið að reyna að gera sitt besta til að ná þessum manni út úr samfélaginu aftur til að tryggja öryggi okkar allra,“ segir ráðherra.
Hann segir ástæðu til að fara yfir málið og læra af því. Ráðherra og ráðuneytið hafi eðli málsins samkvæmt ekki bein afskipti af einstaka málum hjá lögreglu, það geri nefnd um eftirlit með lögreglu.
Heldurðu að rasismi sé kerfisbundinn vandi innan lögreglunnar?
„Nei. Ég er algjörlega sannfærður um að svo sé ekki.“
En almennt í samfélaginu?
„Það er ekkert óeðlilegt við það að þessi umræða sprettur upp af þessu tilefni, þegar málið liggur eins og það liggur. En ég er alveg sannfærður um það að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því hjá lögreglu, að það sé eitthver slíkt í gangi á þeim vettvangi.“