Jón Gunnars­son, dóms­mála­ráð­herra, segist al­gjör­lega sann­færður um að kerfis­bundinn ras­ismi sé ekki vanda­mál innan lög­reglunnar hér á landi. Frétta­blaðið ræddi við Jón að loknum ríkis­stjórnar­fundi nú fyrir skemmstu.

Jón segist hafa átt sam­töl við ríkis­lög­reglu­stjóra vegna máls hins 16 ára gamla pilts sem lög­reglan hugðist hand­taka í tví­gang, vegna gruns um að hann væri tví­tugi stroku­fanginn Gabríel Dou­ane Boama, sem nú hefur verið hand­tekinn.

„Við sam­mæltumst um að hittast og fara yfir þetta mál. Þetta er á­kaf­lega ó­heppi­legt eins og ég hef sagt, að þetta skuli hafa komið upp, með þennan unga mann, gagn­vart honum og fjöl­skyldu hans, sem maður hugsar til. Þetta var ó­skemmti­leg lífs­reynsla fyrir þau að lenda í,“ segir Jón.

„Hitt er svo annað, að lög­reglan var auð­vitað við erfiðar að­stæður að leita að stór­hættu­legum manni. Það er hennar verk­efni að gæta borgaranna og ég bið líka um skilning á því að lög­reglu­menn hafa örugg­lega ekki verið að leika sér að þessu, heldur verið að reyna að gera sitt besta til að ná þessum manni út úr sam­fé­laginu aftur til að tryggja öryggi okkar allra,“ segir ráð­herra.

Hann segir á­stæðu til að fara yfir málið og læra af því. Ráð­herra og ráðu­neytið hafi eðli málsins sam­kvæmt ekki bein af­skipti af ein­staka málum hjá lög­reglu, það geri nefnd um eftir­lit með lög­reglu.

Heldurðu að ras­ismi sé kerfis­bundinn vandi innan lög­reglunnar?

„Nei. Ég er al­gjör­lega sann­færður um að svo sé ekki.“

En al­mennt í sam­fé­laginu?

„Það er ekkert ó­eðli­legt við það að þessi um­ræða sprettur upp af þessu til­efni, þegar málið liggur eins og það liggur. En ég er alveg sann­færður um það að við þurfum ekki að hafa á­hyggjur af því hjá lög­reglu, að það sé eitt­hver slíkt í gangi á þeim vett­vangi.“