Jarð­hræringarnar á Reykja­nesi hafa vakið at­hygli út fyrir land­steina en bresku miðlarnir Guar­dian, Bloom­berg og BBC eru meðal þeirra er­lendu miðla sem fjallað hafa um málið í dag.

Frétta­blaðið hefur fylgst náið með um­brotum í allan dag. Í nýjustu til­kynningu frá Veður­stofu Ís­lands segir að enn megi greina ó­róa­merki á svæðinu milli Keilis og Fagra­dals­fjalls og enn sé fylgst náið með stöðunni.

Í um­fjöllun sinni vitnar Guar­dian meðal annars til Víðis Reynis­sonar, yfir­lög­reglu­þjóns af blaða­manna­fundi dagsins þar sem hann sagði að mjög lík­lega myndi koma til eld­goss. Hins­vegar séu engar ham­farir í upp­siglingu og því eigi fólk að halda ró sinni.

Þá er sér­stak­lega haft eftir Frey­steini Sig­munds­syni, jarð­eðlis­fræðingi, að það sem sé að gerast á Reykja­nes­skaga nú sé „al­gjör­lega ó­líkt Eyja­fjalla­jökli“ og vitnað til eld­gossins frá árinu 2010. Eins og al­þjóð veit lagði um­rætt sex daga eld­gos flug­um­ferð í Evrópu á hliðina.

„Það er afar ó­lík­legt að þetta muni trufla flug­sam­göngur,“ hefur miðillinn eftir Frey­steini sem bendir á að um verði að ræða svo­kallað hraun­gos, eins og fram hefur komið.

Eyjafjallajökull eyðilagði fríið hjá þessum Skota árið 2010 sem hugsar Íslandi eflaust enn þegjandi þörfina:

Flestir muna vel eftir eldgosinu í Eyjafjallajökli.
Fréttablaðið/Vilhelm
Eldgosið nú verður líklegast líkara eldgosinu í Holuhrauni frá 2014 en þó minna.
Fréttablaðið/Egill