Jarðhræringarnar á Reykjanesi hafa vakið athygli út fyrir landsteina en bresku miðlarnir Guardian, Bloomberg og BBC eru meðal þeirra erlendu miðla sem fjallað hafa um málið í dag.
Fréttablaðið hefur fylgst náið með umbrotum í allan dag. Í nýjustu tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að enn megi greina óróamerki á svæðinu milli Keilis og Fagradalsfjalls og enn sé fylgst náið með stöðunni.
Í umfjöllun sinni vitnar Guardian meðal annars til Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns af blaðamannafundi dagsins þar sem hann sagði að mjög líklega myndi koma til eldgoss. Hinsvegar séu engar hamfarir í uppsiglingu og því eigi fólk að halda ró sinni.
Þá er sérstaklega haft eftir Freysteini Sigmundssyni, jarðeðlisfræðingi, að það sem sé að gerast á Reykjanesskaga nú sé „algjörlega ólíkt Eyjafjallajökli“ og vitnað til eldgossins frá árinu 2010. Eins og alþjóð veit lagði umrætt sex daga eldgos flugumferð í Evrópu á hliðina.
„Það er afar ólíklegt að þetta muni trufla flugsamgöngur,“ hefur miðillinn eftir Freysteini sem bendir á að um verði að ræða svokallað hraungos, eins og fram hefur komið.
Eyjafjallajökull eyðilagði fríið hjá þessum Skota árið 2010 sem hugsar Íslandi eflaust enn þegjandi þörfina:

