„Staðan er fín,“ segir Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC Bakka. „Við höfum bætt framleiðslu okkar jafnt og þétt undanfarið og setjum ný met í hverjum mánuði.“

Rekstur PCC hefur markast af áföllum. Bilanir hafa verið tíðar, forstjóraskipti, mikil niðurfærsla á hlutafé og fleira. Fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, hélt því nýverið fram að PCC, sem framleiðir kísilmálm, væri nánast í andarslitrunum.

„Fréttir af andláti okkar eru stórlega ýktar,“ segir Rúnar.

Starfsmannafjöldinn er nú um 150 manns að sögn Rúnars. Þegar fyrirtækið hafi neyðst til að slökkva tímabundið á ofnum verksmiðjunnar hafi hann sagt að þeir myndu endurheimta mannauð sinn á ný. Það hafi gengið eftir. Allir starfsmenn hafi skilað sér til baka. Þeir séu flestir af erlendu bergi brotnir og hafi komið sér vel fyrir.

„Salan gengur vel, markaðir eru góðir. Við erum að skynja allt annað landslag en verið hefur,“ segir Rúnar. Verksmiðjan sé nú í hámarksafköstum. „Eigendur verksmiðjunnar eru sáttir við gang mála, enda algjör viðsnúningur.“

Annas Jón Sigmundsson, hjá PCC, segir að fyrirtækið hafi skilað hagnaði síðustu þrjá mánuði. Veltan sé um tveir milljarðar á mánuði. Verð á hverju tonni af framleiðsluafurð fyrirtækisins hafi rokið úr 1.500 evrum í 7.000 evrur.

Ef reksturinn heldur þannig áfram gæti farið svo að milljarða niðurfærslur á hlutabréfum gangi til baka að sögn Rúnars. Erlendir fjárfestar eiga mest í verksmiðjunni en um 14 prósent eru í eigu Bakkastakks, lífeyrissjóðir eru þar á meðal.