Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Laugardagur 4. mars 2023
14.00 GMT

Anna Magga, eins og hún er alltaf kölluð lýsir sér sjálf sem Þorlákshafnarmær sem búsett sé í Reykjavík.

„Ég er menntuð leikkona og ásamt því að starfa sjálfstætt á því sviði og sem söngkona vinn ég sem aðstoðarforstöðukona í félagsmiðstöð. Og svo auðvitað útvarpskona líka. Ég elska fjölbreytni, vil hafa sem nóg og fjölbreyttast að gera,“ segir Anna Magga.

Í þáttunum Tíðarandinn sem hefja göngu sína á morgun, sunnudag, ferðast hún aftur í tímann og skoðar lögin sem verða tvítug, þrítug, fertug og fimmtug á árinu ásamt því að skoða tíðarandann hverju sinni.

„Hugmyndin á bakvið Tíðarandann kom út frá lagalista á Spotify. En ég var að fylgja lagalista á Spotify með lögum sem urðu tuttugu ára fyrir nokkrum árum og hugsaði að það ætti að vera hægt að gera seríu úr svona og taka fyrir fleiri ár,“ útskýrir Anna Magga.

Eitt ár í hverjum þætti

Þættirnir verða á dagskrá á sunnudögum í mars, frá 11-12:20, fram að hádegisfréttum.

„Ég byrja á árinu 1973, fimmtugu lögunum, tek svo 1983 í næsta þætti, svo 1993 og enda á 2003, tek sem sagt eitt ár fyrir í hverjum þætti. Svo fer ég yfir hvað var að gerast í samfélaginu hverju sinni.“

Anna Magga segist hafa legið yfir gömlum auglýsingum og tímaritum í undirbúningsvinnunni.

„Og ég er auðvitað búin að klára internetið í leit að fróðleik, þetta hefur ekki verið neitt smá gaman. Það er algjör nostalgía að grugga í þessu. Hver var fegurðardrottning hvaða ár, hver fór í júró? Hvað kostaði ferð til Mallorca? Þetta er alls konar sem ég skoða.“


„Það er algjör nostalgía að grugga í þessu. Hver var fegurðardrottning hvaða ár, hver fór í júró? Hvað kostaði ferð til Mallorca?"


Íslenskt og erlent í bland

Aðspurð segist hún velja íslensk og erlend lög í bland.

„Ég passa vel upp á fjölbreytni, að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég vel mismunandi tónlistarstefnur og svo var ég líka að reyna að passa uppá kynjahlutföllin,“ segir hún og bætir við að það hafi orðið auðveldara því nær sem dregur okkar tíma.

„Hlutföllin voru ekki alveg jöfn fyrst um sinn því miður sem sýnir bara breytingarnar í gegnum árin, sem er vel.“

Aðspurð hvaða tímabil sem hún tekur fyrir sé í uppáhaldi hjá henni sjálfri svarar Anna Magga:

„Ég ætti auðvitað að segja fæðingarárið mitt, 1983 en ég verð að segja 1993 því 90s músikin er og verður alltaf í uppáhaldi hjá mér. Ég er 90s krakki svo það var virkilega erfitt að velja lög fyrir þetta tímabil, enda langaði mig að velja svo mörg.“


„Ég er 90s krakki svo það var virkilega erfitt að velja lög fyrir þetta tímabil, enda langaði mig að velja svo mörg.“


Með vasadiskó á ferðalögum

Hún lýsir sér sem alætu á tónlist og gamalli sál.

„Ég drakk í mig tónlistina sem foreldrar minir og eldri bræður hlustuðu á og fékk í hendur plötusafn foreldra minna fyrir ekki svo löngu og þar eru heldur betur gersemar. Ég var líka mjög mikið í því að stela geisladiskum frá bræðrum mínum. Ég man mjög sterkt eftir því þegar ég fann Kirsuber diskinn frá Nýdönsk inni hjá bróður mínum og hlustaði á hann, ég var átta ára og algjörlega dolfallin yfir þessari tónlist.“

Anna Magga segist alltaf hafa verið háð tónlist, bæði að hlusta á hana og syngja hana.

„Á ferðalögum mínum um landið með foreldrunum sat ég aftur í með vasadiskóið og söng hástöfum með því sem ég var að hlusta á, algjörlega í mínum heimi, greyið foreldrarnir segi ég nú bara,“ segir hún og hlær.

„Ef ég var orðin óþolinmóð að sitja í bíl sögðu foreldrar mínir mér að ég mætti velja kassettu á næstu bensínstöð sem við myndum stoppa á og ég varð alveg alsæl.

Ég gleymi því aldrei þegar ég fann nýjustu kassettuna með Vini vors og blóma á bensínstöðinni á Kirkjubæjarklaustri, litla veislan! Já eða SS Sól kassettuna í Vík í Mýrdal,“ segir hún að lokum.

Athugasemdir