Smitrakningarappið Rakning C-19 hefur ekki enn náð til­skyldum árangri í bar­áttunni gegn heims­far­aldri Co­vid-19 og fáir hafa hingað til fengið til­kynningar um út­setningu í gegnum appið. Á­stæðan fyrir því er aðal­lega tækni­legs eðlis en stór upp­færsla var gefin út í desember til að leysa þau vanda­mál.

„Mjög mikil­vægt er að allir sem eru með appið upp­færi það og virki aftur til að smitrakning sé virk. Þátt­taka er mikil­væg,“ segir Davíð Arnar Þórs­son, tölvunar­fræðingur hjá Mið­stöð raf­rænna heil­brigðis­lausna.

Í dag eru um 230 þúsund tæki með Rakning C-19 upp­sett. Ekki er alveg víst þó hversu margir bú­settir á Ís­landi eru með appið þar sem margir ferða­menn hafa nýtt sér það auk þess sem ein­hverjir Ís­lendingar eru með reikninga skráða annars staðar en á Ís­landi.

Al­gengt er að ein­staklingar séu með appið upp­sett í tækjunum sínum en ekki virkt. Eru mögu­lega ekki með kveikt á Bluet­ooth eða hafa ekki virkjað appið aftur eftir síðustu upp­færslur. Davíð í­trekar að mikil­vægt sé að hafa appið virkt til að það geti náð árangri.

„Okkar sýn er að appið geti hjálpað okkur enn frekar að takast á við bylgjur eins og við erum að lenda í núna vegna Omíkron og að­stoða smitrakningu við að greina smit,“ segir Davíð.

Appið hefur þó komið upp um ein­hver smit á ferli sínum en mun færri en vonast var eftir. „Við vonumst til að nýja út­gáfan af appinu hjálpi okkur enn frekar í þessu, auk þess að við erum að vinna að frekari sjálf­virkni í skráningu á smitum,“ segir Davíð.