Bjarni Snæbjörnsson hefur slegið í gegn í sýningunni Góðan daginn faggi sem sýnd hefur verið yfir fjörutíu sinnum í Þjóðleikhúsinu. Hann flytur lag Hinsegin daga í ár og hvetur alla til að taka þátt í hátíðinni og sýna stuðning af heilindum.

„Hinseginleikinn er ekki söluvara fyrir hetero samfélagið til að tikka í box, það er það sem kallast bleikþvottur,“ bendir Bjarni á. Hugtakið bleikþvottur eða Pinkwashing lýsir því hvernig þjóðríki, einstaklingar og fyrirtæki nota sér hinsegin fólk og málefni þeirra til að skapa sér jákvæða ímynd.

„Það er allt of algengt að fólk fjalli um hinseginleikann eða tengi við hann á einhvern hátt til þess að tikka í einhver box, en þetta þarf að vera gert af heilindum,“ segir Bjarni.

„Það er nefnilega ekki nóg að segja eitthvað einu sinni eða kaupa auglýsingu í bækling Hinsegin daga eða eitthvað svoleiðis, heldur þarf fólk raunverulega að standa með hinsegin samfélaginu og taka umræðuna hvar sem er, allt árið um kring. Við kaffivélina, í matarboði eða hvar sem fordómar birtast, þó það skemmi stemninguna“ segir Bjarni.

„Og ég er ekki að tala um að rífast eða skapa vandræði, bara mæta með kærleikann og samkennd að vopni ef að einhver segir eitthvað fordómafullt. Þannig eru sannir bandamenn okkar,“ segir hann.

Hinsegin dagar alla daga

„Hjá okkur eru nefnilega hinsegin dagar allt árið um kring, við förum ekkert í pásu frá því að vera hinsegin. Það er mjög sárt að sjá stofnanir, fyrirtæki og fólk nota bleikþvott og standa svo ekki við stóru orðin þegar reynir á. Þetta eru oft erfið samtöl en við þurfum að eiga þau á víðum grundvelli í öllum krókum samfélagsins.”