Ísak sem lærði förðun hér á landi það herrans ár 2007 flutti þremur árum síðar til London og þar hefur hann nú verið síðastliðin tólf ár og gert það gott sem förðunarfræðingur.

Aðspurður um stærstu verkefnin segist Ísak hafa unnið fyrir ýmiss konar tímarit, svo sem Vogue, I-D, W, Elle, Modern Matter og einnig með tónlistarmönnum á borð við Katy Perry, Dua Lipa, Charli XCX, Professor Green, JP Cooper, Of Monsters and Men, Nicole Scherzinger og fólki á borð við Monicu Lewinsky, Anja Rubik, Eva Herzigova, Sophie Dahl, Cara Delevingne og Poppy Delevigne svo fátt sé nefnt.

Ísak segir að í sínu fagi skipti mestu að byggja sjálfan sig upp sem listamann. „Það er mikilvægt að vita hvert þú vilt fara í bransanum, skapa sinn eigin stíl og þora að hugsa út fyrir rammann. Fyrir mér tengi ég förðun við það að mála og skapa út frá listrænu sjónarhorni,“ segir hann og bætir við að hann noti tilfinningar líka í hvert sinn og innblásturinn sem hann fái frá því andliti sem hann er að farða í það skiptið.

Instagram-förðun úti

Ísak er sannarlega með puttann á púlsinum þegar kemur að því heitasta í förðun hverju sinni því þó einhverjum grunnreglum sé ávallt fylgt er mikið um tískustrauma í förðun eins og öðru. Aðspurður hvaða förðunartrend sé helst á útleið þessa dagana svarar hann ákveðinn: „Instagram-förðun, Instagram-förðun, Instagram-förðun, var ég búinn að segja Instagram-förðun?“ segir hann ákveðinn en í léttum tón og heldur áfram:

„Ísland er lítið land og það er oft þannig að ef það kemur inn eitthvert trend eins og til dæmis Kim Kardashian/Instagram-förðun þá hoppa allir á það. Þá mála allir sig eins og hálfgerða dragdrottningu með hvíta línu niður nefið og fimm mismunandi tóna af farða á andlitinu.

Vitaskuld eru til förðunarfræðingar sem fíla svoleiðis farðanir og vilja feta þann veg í bransanum sem er bara hið besta mál. Allir hafa rétt á sínu tjáningarfrelsi,“ segir Ísak en bendir á að slík förðun eigi þó ekki upp á pallborðið í hinum stóra tískuheimi sem hann starfar við.

„Mín reynsla er líka sú að þegar ég hef fengið aðstoðarfólk frá Íslandi til að aðstoða mig í verkefnum í London hef ég þurft að stýra því í burt frá allt of miklum farða og miklum skyggingum. Það er eitt að mála sig fyrir símann sinn heima hjá sér og annað að mála fyrir sjónvarpsauglýsingu þar sem er verið að selja húðvöru.“

„No makeup makeup“ en með sterkum augum eða vörum eins og hefur til dæmis sést á síðastliðnum tískuvikum

Ísak hefur farðað margar stórstjörnurnar og tekið þátt í verkefnum fyrir stóru tímaritin eins og Vogue, I-D, W og Elle.
Mynd/Samsett

Falleg húð og sterk augu og varir

En hvað ætli sé það heitasta í þessum efnum?

„No makeup makeup“, en með sterkum augum eða vörum eins og hefur til dæmis sést á síðastliðnum tískuvikum. Húðin er þá eins og silki, lítil skygging en allt gert ótrúlega vel. Smá eins og verið sé að farða fyrir Edwardian-kvikmynd frá árinu 1910. Við erum þá að tala um farða sem sést ekki en húðin er falleg með smá lit í kinnum og smá skyggingu.“

Aðspurður hversu hratt heitustu trendin nái hingað til lands svarar Ísak að við séum náttúrlega ekki vélmenni sem geri allt eins.

„Allir hafa sína rútínu og farða sig eins og þeim líður best, sem er frábært. Þegar ég var yngri elskaði ég að meika mig með þykkum farða, mála augun kolsvört og hafa varirnar nude. Mér leið ótrúlega flottum þannig,“ segir hann og hlær.

Ísak segir förðunarfræðinga ekki endilega eltast við trend en mikilvægt sá að hafa skilning á því til hvers er ætlast af manni ef maður ætli sér að gera það gott erlendis.

Þá mála allir sig eins og hálfgerða dragdrottningu með hvíta línu niður nefið og fimm mismunandi tóna af farða á andlitinu

Sjá eftir að hafa plokkað

„Þá er mikilvægt að skilja að Instagram-förðun á ekki heima í bransanum nema auðvitað í einstaka tilfellum, til dæmis í Los Angeles er ennþá mikið í þessum stíl. En jafnvel þar hefur hann breyst, það er allt orðið mikið léttara, minni farði, meira glow, náttúrulegri skyggingar og svo framvegis.“

Það er ekki hægt að sleppa Ísaki án þess að spyrja hann út í augabrúnirnar sem þykkst hafa jafnt og þétt undanfarin ár. Sögusagnir hafa verið á kreiki um að örfínu augabrúnirnar, í ætt við þær sem Pamela Anderson skartaði þegar hún var á toppnum, séu að koma aftur. Ljóst er að hann er ekki hrifinn.

„Ég vona svo sannarlega ekki, því ég get ekki sagt þér hversu oft ég heyrt frá konum hvað þær sáu eftir því að hafa plokkað á sér augabrúnirnar „in the 90’s“.