Alexandra Briem, for­seti borgar­stjórnar, hefur á­huga á því að leiða lista Pírata í Reykja­vík í komandi sveitarstjórnarkosningum, þó með þeim fyrir­vara að flokks­systir hennar, Dóra Björt Guð­jóns­dóttir, muni ekki gefa kost á sér í efsta sæti listans. Þetta segir Alexandra í færslu á Face­book.

„Ég mun sækjast eftir að vera í 1.-2. sæti. Ef Dóra Björt vin­kona mín vill gefa kost á sér aftur er ég bara mjög sátt við að hún sé í fyrsta sæti, hún hefur staðið sig gífur­lega vel og okkar sam­starf hefur verið frá­bært, en ef hún gefur ekki kost á sér vil ég sækjast eftir að leiða listann,“ skrifar Alexandra.

Dóra liggur enn undir feldi en vænta má að hún geri upp hug sinn á komandi vikum.

Alexandra hóf þetta kjör­tíma­bil sem vara­borgar­full­trúi Pírata en varð aðal­maður nú í vor þegar Sigur­borg Ósk Haralds­dóttir lét af störfum.

„Ég legg þó að sjálf­sögðu mín störf bara í dóm Pírata og þigg hvaða sæti sem þau velja mig í. En ef ég velst til að vera með í fram­línunni, þá hlakka ég til að leggja okkar störf í dóm kjós­enda. Ég held við höfum sýnt og sannað að við eigum fullt erindi á þessum vett­vangi og höfum náð miklum árangri, sem mér finnst á­kaf­lega mikil­vægt að halda á­fram,“ segir Alexandra enn fremur.

„Mér finnst ég enn­þá vera að læra, enn­þá vera að vaxa í þessu, og mér líður eins og ég eigi enn­þá mikið til að gefa. Ég hef unnið ótal mis­munandi störf í gegnum tíðina, en mér líður eins og þetta sé það fyrsta sem ég hef tekið mér fyrir hendur þar sem ég virki­lega upp­lifi að ég sé góð í því sem ég er að gera og sé að ná árangri,“ segir Alexandra.

Þá segir hún jafnframt í færslunni að starf borgar­full­trúa sé erfitt, lýjandi og á köflum ó­þolandi „en líka á sama tíma mjög á­huga­vert og gefandi, meira að segja þegar ég er sár­þreytt og pirruð í lok dags.“