Mál Guðlaugs Þórs og nemandans Alexöndru Ýr van Erven hefur nú vakið mikla athygli en hún greindi frá upplifun sinni af heimsókn stjórnmálafræðinema og ummæli utanríkisráðherra sem látin voru falla í téðri heimsókn í síðasta mánuði. Guðlaugur hefur nú beðist afsökunnar vegna málsins en tekur fram að um hafi verið að ræða óviðeigandi samlíkingu.

Í færlunni sem hún birtir segir hún að utanríkisráðherra hafi sagt „hvernig litist þér nú á að ég færi að kenna þér að ríða en væri hreinn sveinn en hefði lesið mér hellings til um kynlíf,“ en að sögn Alexöndru lét utanríkisráðherra ummælin falla eftir að þau voru ósammála um hlutverk háskóla í samfélaginu.

„Sagðist aldrei ætla að kenna henni að ríða“

„Hann sagðist aldrei ætla að kenna henni að „ríða“ eins og hún orðaði það á twitter, hann notaði aldrei þessi orð,“ segir Þórunn Soffía Snæhólm í svari til Fréttablaðsins en hún situr í stjórn félags stjórnmálafræðinema. Hún segir að orðræða Guðlaugs í heimsókn stjórnmálafræðinema í utanríkisráðuneytið hafi „ekki verið sú besta“ en tekur þó fram að sama mætti segja um hvernig Alexandra Ýr van Erven stílfærði ummæli hans á Twitter.

Verið að afvegaleiða umræðuna

Að sögn Alexöndru bjóst hún ekki við að málið færi á þann hátt sem það hefur nú gert. „Það er ekki kjarni málsins hvaða orð ráðherra notaði um það að stunda kynlíf. Merkingin er sú sama og umræða um annað er einungis til þess gerð að afvegaleiða hana,“ segir Alexandra í samtali við Fréttablaðið.

„Punkturinn er sá að hann átti ekkert að vera að tala um kynlíf yfir höfuð. Framsetning Guðlaugs var augljóslega smækkandi fyrir mig og gerð til að slá sjálfum sér á brjóst. Ráðherra sýnir gríðarlegt dómgreindarleysi," segir Alexandra að lokum.