Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 2. júlí 2021
23.00 GMT

Þrátt fyrir ungan aldur hafa þau Alexandra og Gylfi verið par í rúman áratug og gengu í hjónaband árið 2019, eftir níu ára samband.

„Við kynnumst haustið 2010 í gegnum frænku mína og frænda,“ segir Alexandra aðspurð um upphaf sambandsins.

„Hann bjó þá í Þýskalandi og við töluðum saman klukkustundunum saman á spjallforritinu MSN.“ Það var svo á Þorláksmessu sama ár sem þau hittust í fyrsta sinn og þá var ekki aftur snúið að sögn Alexöndru.

„Fyrstu sex mánuðina vorum við þó í fjarsambandi þar sem ég hafði ráðið mig til vinnu hjá flugfélaginu Emirates í Dubai og hann var að spila í Þýskalandi. Ég flutti svo út til hans sumarið sumarið 2011 og síðan þá höfum við átt heimili á fjórum stöðum,“ útskýrir Alexandra en fjölskyldan býr nú Liverpool þar sem Gylfi leikur með Everton.


„Ég flutti svo út til hans sumarið sumarið 2011 og síðan þá höfum við átt heimili á fjórum stöðum.“


Það vakti athygli undir lok síðasta árs þegar Alexandra birti mynd á samskiptamiðlinum Instagram þar sem hún er með yfir 20 þúsund fylgjendur og sagði frá því að þau hjón ættu von á sínu barni. Hún bætti þó um betur og opnaði sig um að biðin eftir barni hafi varað í fimm ár, parið sem barist hafi við ófrjósemi hafi loks verið bænheyrt.


Maður upplifir sig hálf gallaðan

Hjónin fengu fréttirnar um að líklega yrði ekki auðvelt fyrir þau að eignast barn þegar þau voru aðeins 26 ára gömul og segir Alexandra það hafa verið ótrúlega skrítið að heyra þær.


„Maður upplifir sig hálf gallaðan, þegar þetta er eitthvað sem flestir í kringum mann hafa ekki þurft að hafa mikið fyrir. Þegar maður byrjar svo að reyna að eignast barn gengur maður að sjálfsögðu út frá því að allt gangi vel þar til annað kemur í ljós.“


„Þegar maður byrjar svo að reyna að eignast barn gengur maður að sjálfsögðu út frá því að allt gangi vel þar til annað kemur í ljós.“


Alexandra lýsir því sem miklum vonbrigðum í hvert sinn sem tíðahringurinn hófst að nýju enda hafi vonin verið sterk og hausinn alltaf kominn dálítið lengra fram í tímann.


Þetta var ákveðið sjokk

„Við leituðum fyrst til læknis eftir að hafa reynt í sirka ár og fengum þá þær fréttir að líklegast yrði ekki auðvelt fyrir okkur að eignast barn. Við vorum rúmlega 26 ára og lifðum mjög heilsusamlegu lífi og erum bæði hraust svo þetta var ákveðið sjokk.“


„Við vorum rúmlega 26 ára og lifðum mjög heilsusamlegu lífi og erum bæði hraust svo þetta var ákveðið sjokk.“


Úr varð að reyna glasameðferð og var sú fyrsta reynd árið 2016 án árangurs og segir Alexandra þá neikvæðu útkomu hafa reynst sér virkilega erfið.


„Ég var svo spennt að vera komin í einhvers konar ferli og fá loksins hjálpina sem þurfti og hélt svo innilega að þá myndi allt ganga upp. Ég þurfti að hafa mikið fyrir því að koma mér aftur í gang eftir það,“ segir Alexandra sem á sama tíma var að glíma við mikla króníska bakverki. „Blandan af þessu tvennu var mjög erfið andlega og líkamlega.“

Hún lýsir því að eftir einhvern tíma sem að sjálfsögðu sé mislangur á milli para komi aftur upp löngunin til að reyna við meðferð og þá sé farið í undirbúning og að skoða kostina sem í boði eru.


„Í hvert skipti sem eitthvað nýtt er reynt þá hækkar vonarstigið. Fallið og vonbrigðin verða því oft aðeins hærri með hverju skiptinu sem maður fær neikvæða útkomu.

Við ákváðum til dæmis að taka okkur árs pásu frá öllu tengdu þessu fyrir brúðkaupið þar sem við vildum einbeita okkur að gleðinni sem fylgdi því að plana það. Ég held að það hafi verið mjög hollt fyrir okkur bæði og sambandið að taka þetta aðeins út af borðinu í smá tíma og njóta lífsins,“ segir Alexandra en þau hjónin giftu sig með pompi og prakt við Como vatn á Ítalíu fyrir tveimur árum síðar.

Alexandra og Gylfi gengu í hjónaband fyrir tveimur árum við fallega athöfn að viðstöddum vinum og fjölskyldu við Como vatn á Ítalíu. Mynd/Luca&co

Ófrjósemis herbúðir


„Haustið eftir að við giftum okkur, eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir fundum við klíník í London sem okkur leist vel á. Það haust hófst mikill undirbúningur hjá mér í formi lyfjagjafar til þess að reyna að fínstilla ákveðin gildi í líkamanum og undirbúa mig fyrir meðferðina,“ útskýrir hún.

Það var svo í janúar 2020 sem meðferðin hófst fyrir alvöru og segir Alexandra í léttum tón að í raun mætti líkja henni við „infertility bootcamp” eða „ófrjósemis herbúðir.“

„Ég þurfti að dvelja í London í nokkrar vikur þar sem eftirlitið hjá þeim var mikið. Sú meðferð gekk hins vegar ekki upp og áfallið var mikið,“ útskýrir hún alvarleg.


„Ég þurfti að dvelja í London í nokkrar vikur þar sem eftirlitið hjá þeim var mikið. Sú meðferð gekk hins vegar ekki upp og áfallið var mikið.“


„Mér fannst ég hafa lagt gjörsamlega allt undir bæði líkamlega og andlega og hélt að með aukinni hjálp myndi þetta kannski loksins ganga upp. Ég fann þó fyrir einhverjum auknum krafti og ákvað að drífa mig mánuði seinna í næstu meðferð. Eftir stöðugar ferðir fram og til baka frá London skall Covid á og því miður varð að hætta meðferð þegar henni var nánast lokið.“

Hjónin ákváðu að gera hlé á ferlinu í kringum tilraunir til barneigna á meðan á brúðkaupsundirbúningi stóð enda höfðu vonbrigðin tekið á. Mynd/Luca&co

„Ég var gjörsamlega búin á því og ákvað að einbeita mér að því að styrkja mig andlega og líkamlega þar til kæmi í ljós hvenær við gætum haldið áfram.“

Hjónin héldu heim til Íslands um sumarið eftir langt útgöngubann í Bretlandi og Alexandra hafði hafið undirbúning fyrir næstu meðferð sem átti að hefjast í ágúst.

Hlustaði á innsæið


„Þegar heim var komið leið mér einstaklega vel og innsæið sagði mér að fresta meðferðinni um mánuð og framlengja ferðina mína heima. Sem betur fer, því í lok ágúst komst ég óvænt að því að ég væri ófrísk.“

Það kom Alexöndru mjög á óvart þegar hún komst að því í lok ágúst síðasta árs að hún væri með barni. Mynd/Saga Sig

Alexandra segir þau hjón snemma hafa vitað að þau langaði að verða foreldrar saman og ófrjósemin hafi reynst henni ótrúlega erfið andlega.


„Ég leitaði mér hjálpar eftir að hafa verið lengi í þessu ferli. Það fylgja þessu allskonar erfiðar tilfinningar. Eftir mikla sjálfsvinnu og hjálp frá fagaðilum sem ég er innilega þakklát fyrir að hafa fengið ákvað ég að reyna að líta á þetta ferli sem andlega vegferð. Ég hef þroskast ótrúlega mikið og kynnst sjálfri mér vel eftir þessa upplifun,“ útskýrir hún.

„Ófrjósemi er mikill tilfinningarússibani og getur oft á tíðum verið einmana staður að vera á. Ég upplifði mig stundum svolítið einmana í sorginni sem fylgdi þessu enda ekki margir í kringum mann sem skilja líðanina sem fylgir þessu.“


„Ég upplifði mig stundum svolítið einmana í sorginni sem fylgdi þessu enda ekki margir í kringum mann sem skilja líðanina sem fylgir þessu.“


Alexandra viðurkennir að hafa verið frekar lokuð um erfiðleikana í upphafi og ekki talað mikið um þá.

„Mér fannst það ákveðinn léttir þegar við sögðum fólkinu í kringum okkur frá stöðunni. Það er erfitt að vera stanslaust að fá spurningar um barneignir þegar þú þráir ekkert heitar en að eignast barn og hefur reynt allt til að uppfylla þann draum,“ segir hún einlæg.


Viss um að hún yrði mamma


En þrátt fyrir mótlætið kom uppgjöf aldrei í hugann.

„Ég hef alltaf verið viss um að ég yrði mamma einn daginn, en ég vissi ekki hvaða veg ég yrði að ganga til þess að það yrði að veruleika.“

Aðspurð segir Alexandra góðan stuðning frá maka öllu skipta í slíku ferli og mikilvægt sé að hlúa vel hvert að öðru.

„Ég kynntist yndislegu fagfólki á þessum tíma sem hjálpaði mér í gegnum erfiðustu tímabilin og aðstoðaði mig við að byggja mig upp aftur. Mér fannst líka gott að hlusta á hlaðvarpsþætti tengda málefninu þar sem fólk sagði frá sinni upplifun og sjá umræðu í fjölmiðlum frá fólki í svipaðri stöðu.“


Erfitt að þjást í þögn


Hún segir umræðu um ófrjósemi mikilvæga enda þjáist margir í þögn eins og hún sjálf gerði í upphafi.


„Það er alltaf gott þegar fólk opnar á umræðuna og fær stuðning utan frá. Það er mjög erfitt að fara í gegnum svona erfitt verkefni í þögninni því þetta tekur gífurlega á andlega.“

Alexandra segist alltaf hafa verið viss um að hún yrði mamma einn daginn, en ekki vitaði hvaða veg hún yrði að ganga til þess að það yrði að veruleika. Mynd/Saga Sig

Eftir að Alexandra sagði frá erfiðleikum þeirra hjóna á Instagram segir hún fólk hafa haft beint samband og þakkað henni fyrir að opna á umræðuna og það hafi henni þótt vænt um.

„Ástæðan fyrir því að mig langaði að tala um þetta opinberlega var til þess að vonandi veita einhverjum í þessari stöðu von og styrk til að halda áfram sinni vegferð. Það er svo mikilvægt að missa ekki trúnna.“

Þorði ekki að trúa prófinu


Eins og fyrr segir komst Alexandra að því í lok ágúst á síðasta ári að hún væri, öllum að óvörum, ófrísk.


„Það var ótrúlega skrítið að sjá óvænt jákvætt ólettupróf í fyrsta skipti eftir öll þessi ár. Ég þorði ekki að trúa þessu fyrr en ég fékk þetta staðfest í blóðprufu. Maður heyrir oft svona sögur þar sem fólk er búið að reyna lengi og svo gengur það upp náttúrulega að lokum, en maður heldur aldrei að það muni gerast fyrir mann sjálfan.“

Draumabarnið Melrós Mía hvílir vær í fangi móður sinnar. Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Meðgangan gekk vel þó Alexandra hafi fundið fyrir ógleði alveg fram á síðasta dag sem hún viðurkennir að hafi verið strembið.

„En annars var ég hraust og allt annað gekk vel sem ég var mjög þakklát fyrir.“

Sannkölluð forréttindi

Melrós Mía kom í heiminn í Bretlandi þann 5.maí síðastliðinn og segir Alexandra fæðinguna hafa gengið eins og í sögu.

„Við vorum ótrúlega heppin með fyrsta barn hvað allt gekk vel. Ég átti hana í svokölluðu „birth centre,” eða fæðingarheimili, þar sem áhersla er lögð á að allt sé sem náttúrulegast og sem minnst inngrip notuð. Ljósmæðurnar sem voru með okkur voru yndislegar,“ segir hún.

„Það kom mér á óvart hversu magnaður líkaminn er og ég öðlaðist enn meiri virðingu fyrir honum að hafa afrekað þetta. Bæði að búa til fullkomna barnið okkar og koma því í heiminn. Svo finnst mér magnað að hann geti líka framleitt næringu fyrir barnið eftir að það kemur í heiminn, þetta er svo stórkostleg ferli og sannkölluð forréttindi að fá að upplifa það á þennan hátt,“ segir Alexandra einlæg.


Ástfangin upp fyrir haus

Dóttirin er nú rúmlega tveggja mánaða og segir nýbökuð móðirin fjölskylduna aðlagast hvert öðru vel.

„Hún hefur verið mjög vær og góð og við foreldrarnir erum ástfangin upp fyrir haus af henni. Fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu eru vissulega smá sjokk þar sem líkaminn þarf að jafna sig eftir fæðinguna og hormónarnir eru á fullu ásamt því að vera í nýju hlutverki,“ segir hún.

Alexandra segir þau foreldrana ástfangna upp fyrir haus af frumburðinum langþráða. Mynd/Aðsend

Móðir Alexöndru var fyrstu vikurnar hjá fjölskyldunni í Englandi og segir Alexandra það hafa verið ómetanlegt enda miklar annir hjá eiginmanninum í fótboltanum á þeim tíma.

„Hann fær ekkert frí í fótboltanum í kringum fæðinguna svo það var gott að hafa stuðning frá henni heima þegar hann fór í útileiki og á æfingar.“

Aðspurð segist Alexandra horfa til beggja foreldra sinn sem fyrirmynda í uppeldinu.

„Báðir foreldrar mínir voru alltaf miklir vinir mínir og við erum mjög náin. Það er eitthvað sem mig langar að taka með mér áfram sem foreldri. Mér finnst mikilvægt að barnið upplifi traust og stuðning og geti leitað til manns í öllum þeim aðstæðum sem það lendir í í lífinu.“


„Mér finnst mikilvægt að barnið upplifi traust og stuðning og geti leitað til manns í öllum þeim aðstæðum sem það lendir í í lífinu.“


Fjölskyldan hefur dvalið hér á landi í sumar og nýttu nýbökuðu foreldrarnir tækifærið til að láta skíra dótturina á heimili þeirra hér á landi að viðstöddum fjölskyldu og vinum. Dóttirin fékk nafnið Melrós Mía en Alexandra segir það í raun vera „út í loftið.“

„Ég hafði séð nafnið Melrós áður en ég varð ólétt og heillaðist alveg af því. Við vorum svo bæði mjög hrifin af Míu nafninu og fannst nöfnin passa einstaklega vel saman.“

Hún segir þau hafa vitað snemma á meðgögnunni að von væri á stelpu og þá strax farið að kalla hana nöfnunum.

„Þau festust í raun þar með og svo þegar hún fæddist fannst okkur þau fara henni mjög vel,“ segir nýbakaða móðirin að lokum, yfir sig heilluð af fögrum frumburðinum sem beðið hafði verið eftir.

Nöfnin festust við stúlkuna áður en hún kom í heiminn en hún var skírð við hátíðlega athöfn í síðasta mánuði. Fréttablaðið/Eyþór Árnason
Athugasemdir