Alexandra Briem verður næsti forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, fyrst allra trans kvenna. Hún mun taka formlega við embætti forseta í lok næsta fundar borgarstjórnar, þriðjudaginn 18. maí.

Pawel Barozek, sem hefur gegnt embætti forseta borgarstjórnar í tæp tvö ár, mun taka við formennsku í skipulags- og samgönguráði, en líkt og Fréttablaðið greindi frá sagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, fyrrverandi formaður ráðsins, skilið við stjórnmálin vegna veikinda.

Alexandra segir þetta mikinn heiður og táknrænt skref. Umræðan í borgarstjórn geti verið harkalega en að hún muni leggja kapp á að hún verði málefnaleg.

„Píratar eru raunar ekki uppteknir af titlatogi eða embættum, og ég er það ekki mjög sjálf. En ég er meðvituð um hvað þessir hlutir tákna. Traustið og ábyrgðina sem þeir eru til marks um. Ég mun gera mitt allra besta til að standa undir þessu trausti og vinna þetta starf af öllum mínum mætti, fyrir hönd allra borgarbúa,“ segir Alexandra.