Atvinnumálaráðherra Bandaríkjanna, Alex Acosta, hefur sagt af sér embætti sínu eftir mikla gagnrýni fyrir að hafa haft milligöngu í svokölluðum játningarkaupum milljarðamæringsins Jeffrey Epstein árið 2008. Epstein var þannig til rannsóknar hjá alríkislögreglunni vegna gruns um mansal og misnotkun á stúlkum undir lögaldri.

Acosta tilkynnti um uppsögn sína á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag og stóð forsetinn, Donald Trump, við hlið hans á meðan. Demókratar hafa krafist uppsagnar hans eftir að málið kom í ljós en Acosta starfaði sem saksóknari í Flórída þegar hann tók þátt í að gera umræddan samning við Epstein.

Fyrir aðeins tveimur dögum kom Acosta fram í fjölmiðlum til að verja afstöðu sína til samningsins sem gerður var við Epstein í leyni. Þannig var samið um að Epstein sæti inni í 13 mánuði fyrir minni brot og í staðin var rannsókn á málum hans hætt.

„Þetta var hans ákvörðun ekki mín,“ sagði Trump á blaðamannafundinum og bætti við að Acosta hefði „gífurlega hæfileika“, enda er hann menntaður frá Harvard-háskóla. Fyrr í vikunni hafði hann gefið út að hann fyndi til með atvinnumálaráðherra sínum.

„Mér finnst ekki rétt og sanngjarnt að Epstein sé miðpunktur athyglinnar á þessu stórkostlega efnahagstímabili sem við lifum á einmitt núna,“ sagði Acosta á fundinum og reyndi þannig að benda á hið jákvæða í störfum ríkisstjórnarinnar. „Það væri þó sjálfselskt af mér að halda embætti mínu og halda áfram að svara fyrir þetta tólf ára gamla mál.“

Patrick Pizzella, aðstoðarmaður fráfarandi ráðherrans, mun þá taka við embættinu þegar Acosta stígur formlega til hliðar í næstu viku. Þetta tilkynnti forsetinn á fundinum.

Frétt BBC um málið.