Eldur kviknaði í sumarbústað í Miðdal í nótt. Lögregla og slökkvilið fengu tilkynningu klukkan 00:17 í nótt og þegar komið var á vettvang var húsið alelda. Ekki er vitað hvernig eldurinn kviknaði.

„Þetta er gamall ónýtur sumarbústaður,“ útskýrir vakthafandi varðstjóri slökkviliðs í samtali við Fréttablaðið. Aðspurður segir hann engan hafa verið inni, til allrar hamingju.

„Við vitum ekki hvernig eldurinn kviknaði en það er ekki grunur um íkveikju, alla vega ekki af okkar hálfu,“ segir varðstjóri.

Slökkvistörfum er lokið og hefur lögreglan tekið yfir stjórn vettvangs.

Drjúgur sólarhringur

Þungur sólarhringur er liðinn hjá slökkviliði sem skilaði af sér 110 sjúkraflutningum sem er mikið miðað við sunnudag.

„Þetta var drjúgur sólarhringur,“ segir varðstjórinn. Af 110 sjúkraflutningum voru 36 forgangsútköll en ofan á það bættust sex útköll á slökkvibílana og fimm af þeim á nætuvaktinni.