Skútan Stephima var alelda á Seyðisfirði í gærkvöldi. Slökkvilið Múlaþings var kallað um klukkan tíu í gærkvöldi en fyrst var greint frá brunanum á vef Austurfrétta. Eldsupptök eru óljós.
Þar segir Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkvistjóri, að skútan hafi verið alelda við Bæjarbryggjuna, neðan við gömlu bæjarskrifstofurnar og að slökkviliðið hafi verið komið á vettvang aðeins nokkrum mínútum eftir að tilkynningin barst. Skútan var mannlaus þegar eldurinn kom upp.
Hann segir við Austurfréttir að það hafi tekið stuttan tíma að slökkva eldinn en að slökkvilið hafi varið þónokkrum tíma eftir það í að slökkva í glæðum. Hann sagði að það hefði verið erfitt að eiga við eldinn því að um trefjabát hafi verið að ræða. Eldurinn var slökktur með froðu.
Á vef Austurfrétta kemur fram að til standi að hífa skútuna upp á bryggju í kvöld til að koma í veg fyrir mengun. Hún er erlend en kom til Seyðisfjarðar frá Færeyjum um miðjan maí.