Skútan Stephima var al­elda á Seyðis­firði í gær­kvöldi. Slökkvi­lið Múla­þings var kallað um klukkan tíu í gær­kvöldi en fyrst var greint frá brunanum á vef Austur­frétta. Elds­upp­tök eru ó­ljós.

Þar segir Haraldur Geir Eð­valds­son, slökkvi­stjóri, að skútan hafi verið al­elda við Bæjar­bryggjuna, neðan við gömlu bæjar­skrif­stofurnar og að slökkvi­liðið hafi verið komið á vett­vang að­eins nokkrum mínútum eftir að til­kynningin barst. Skútan var mann­laus þegar eldurinn kom upp.

Hann segir við Austur­fréttir að það hafi tekið stuttan tíma að slökkva eldinn en að slökkvi­lið hafi varið þó­nokkrum tíma eftir það í að slökkva í glæðum. Hann sagði að það hefði verið erfitt að eiga við eldinn því að um trefja­bát hafi verið að ræða. Eldurinn var slökktur með froðu.

Á vef Austur­frétta kemur fram að til standi að hífa skútuna upp á bryggju í kvöld til að koma í veg fyrir mengun. Hún er er­lend en kom til Seyðis­fjarðar frá Fær­eyjum um miðjan maí.