Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, varpaði fram þeirri spurningu hvort mögulega sé farið út fyrir lagarammann þegar búið er að banna börnum yngri en 12 ára að ganga að gosinu.

Var færsla Andrésar Inga svar við dæmi sem Sævar Helgi Bragason teiknaði upp á Twitter-síðu sinni fyrr í dag en færslu Sævars og svar Andrésar Inga má sjá hér fyrir neðan.

Takmarkanir á grundvelli aldurs undarlegar

Andrés Ingi telur að mögulega sé verið beita takmörkunum ranglega með þessu banni en hann segist ekki kannast við það að takmarka megi aðgengi með þessum hætti á grundvelli aldurs.

„Lögreglan hefur náttúrulega mjög víðtækar heimildir til að grípa til aðgerða á hættutímum. En ég þyrfti eiginlega að sjá það hvaða lagaheimildir það eru nákvæmlega sem leyfa það að loka á grundvelli aldurs.“ Segir Andrés og bendir á að mögulega sé hægt að vísa til 23. greinar almannavarnalaga sem segir til um valdheimildir á hættustundu.

Sjá má 23. grein hér fyrir neðan:

VIII. kafli. Valdheimildir á hættustundu.
23. gr. Almenn fyrirmæli á hættustundu.
Á hættustundu er lögreglustjóra heimilt að ákveða að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl eða umferð á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, þ.m.t. tilteknar fasteignir, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk.

Vel viljað en gangi mögulega of langt

„En hvenær ertu með almenn fyrirmæli og hvenær ertu farin að búa til sértæk fyrirmæli sem rúmast þá kannski ekki innan þessarar heimildar?“ spyr Andrés og heldur áfram:

„Ég skil þó vissulega vandann sem yfirvöld standa frammi fyrir af því að fólk var ekki að virða lokanir í gær. En þá var það ekki að virða tilmæli sem voru borin til þess frá björgunarsveitum á staðnum og björgunarsveitir eru bara ekki hluti af valdstjórninni eins og lögreglan er.“

En með þessu telur Andrés að ekki sé fullreynt að fá fólk til að virða lokanir komi þær frá til þess bærum yfirvöldum.

„Þetta slær mig eins og vel viljað en mögulega gangi þetta lengra en lagaramminn leyfir. Ég myndi allavega vilja skoða það betur,“ segir Andrés.