Úrfall hinna fjölmörgu kjarnorkusprenginga sjötta og sjöunda áratugarins er hægt að nota til að aldursgreina hvalháf, stærsta hákarl veraldar. Þetta sýnir ný tilraun sem Steven Campana, prófessor við Háskóla Íslands, tók þátt í ásamt vísindamönnum frá Ástralíu og Bandaríkjunum.

Steven er frá Montreal í Kanada, en starfaði í 30 ár í Halifax á austurströndinni og flutti svo til Íslands fyrir fimm árum. Hann kennir við líf- og umhverfisvísindadeildina og er sérfræðingur í fiski- og hákarlarannsóknum.

Steven segir rannsóknina mikilvæga vegna þess að hvalháfurinn er í útrýmingarhættu og þekking á aldri hans var lítil. „Þegar dýr er mjög stórt, lifir lengi og eignast fá afkvæmi tekur það stofninn langan tíma að jafna sig á áföllum, til dæmis vegna ofveiða,“ segir hann. „Skammlífar tegundir, eins og síld, eru fljótari að því.“

Hvalháfar geta orðið 18 metrar að lengd og 20 tonn að þyngd. Þeir lifa ekki við strendur Íslands heldur kjósa suðrænni slóðir. Til voru tvær kenningar um aldurinn og langt á milli þeirra og því þörf á að rannsaka frekar. Steven og samstarfsfólk hans, Joyce Ong og Mark Meekan, komu þá inn með aðferð sem þau þróuðu fyrir hátt í tveimur áratugum, að nota úrfall kjarnorkutilraunanna úr kalda stríðinu. „Við höfðum notað þetta áður fyrir bæði fisk og hákarl, og þetta virkaði einnig fyrir hvalháfinn. Einn af þeim dó 50 ára gamall, en það var tvöfalt það sem áður hafði verið talið.“

h_50423896.jpg

Hvalháfar eru stærstir hákarla og lifa á suðrænum slóðum

Í sprengingunum rigndi efnum yfir alla jörðina, þar á meðal geislavirku kolefni sem er þó þegar til staðar í lífríkinu vegna geislunar sólar. „Á aðeins tíu árum, 1958 til 1968, tvöfaldaðist magn geislavirks kolefnis í andrúmsloftinu og vatninu. Allt sem óx á þessum tíma tók inn þetta efni og festist í vefjum eins og beinum,“ segir Steven. Með aðferðinni sé hægt að aldursgreina öll dýr og jurtir sem mynda vaxtarvef, svo lengi sem hægt er að finna einhverja lífveru af sömu tegund sem var lifandi á þessum tíma til samanburðar.

Fiskar vaxa alla ævina, mishratt þó, og bein þeirra minna um margt á boli trjáa hvað þetta varðar. Gátu vísindamennirnir því mælt aldurinn út frá magni efnisins í beinhringjunum. „Þetta er tegund sem lifir lengi, vex hægt og þarf því að passa vel upp á ef ekki á að fara illa fyrir henni.“

Þrátt fyrir nytsemi aðferðarinnar er ein ráðgáta enn óleyst, hvað varðar Grænlandshákarlinn, sem talið er að geti orðið aldar eða alda gamall. „Hann er eini hákarlinn sem við höfum ekki getað aldursgreint því ekkert í líkama hans myndar vaxtarvefi,“ segir Steven.