Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir það mis­skilning að hann telji að það þurfi að láta veiruna geisa innan­lands til að ná fram hjarðó­næmi en margir hafa túlkað um­mæli hans í út­varps­þættinum Sprengi­sandi í morgun um að svo þyrfti að vera.

„Þetta er alla vega ekki alveg rétt, hvort sem að ég hef sagt þetta ekki alveg nógu skýrt eða hvort að til­vitnunin er eitt­hvað skrýtin, en auð­vitað er þetta þannig að veiran verður bara látin geisa, það hefur aldrei verið stefnan,“ sagði Þór­ólfur í kvöldfréttum RÚV.

Að­spurður um hvort það sé þá ekki lengur mark­miðið að ná fram hjarðó­næmi sagði Þór­ólfur að það væri enn mark­miðið, á einn eða annan máta. Hann vísaði til þess að bólu­setning væri ein leið til þess en um helmingur þeirra sem eru bólu­settir eru ó­næmir en frekari að­gerðir þurfi til að ná hjarðó­næmi hjá öllum.

„Til þess að ná hjarðó­næmi í sam­fé­laginu þá þurfa fleiri að vera ó­næmir gegn veirunni og það er þá ekki hægt að gera það öðru­vísi heldur en að bólu­setja betur eins og við erum að gera,“ sagði Þór­ólfur og vísaði til örvunar­skammta og endur­bólu­setningu við­kvæmra hópa. „En að segja „nú bara látum við veiruna ganga lausa um sam­fé­lagið,“ það hefur enginn sagt.“

Kamilla á öndverðum meiði

Kamilla sagði aftur á móti í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 telja að hjarðónæmi væri ekki besta leiðin til að takast á við veirunna í ljósi Delta-afbrigðis veirunnar. Hún hafi þó ekki rætt við Þórólf og geti því ekki tjáð sig sérstaklega um ummælin.

„Ég veit ekki endilega hvort það sé rétt að reyna að ná hjarðónæmi en ef það er ekki stefnan að reyna að hafa hemil á þessu að þá verðum við bara að verja viðkvæmustu staðina, stofnanir og fyrirtæki og innviðina hjá okkur,“ sagði Kamilla.

Telur að takmarkanir séu nauðsynlegar

Þá hefur einnig verið vísað til þess að í við­talinu hafi Þór­ólfur sagt að ekki væri endi­lega þörf á hörðum að­gerðum, sem kom þó nokkrum í opna skjöldu. „Ég hef alltaf sagt að við þurfum að vera með ein­hvers konar tak­markanir, bæði á landa­mærum og eins innan­lands og svo erum við með þessar bólu­setningar,“ sagði Þór­ólfur við RÚV.

200 manna sam­komu­bann, eins metra regla, og grímu­skylda er nú í gildi á landinu öllu en nú­verandi reglu­gerð rennur út þann 13. ágúst. Þór­ólfur skilaði inn minnis­blaði til heil­brigðis­ráð­herra í vikunni þar sem finna má ráð­leggingar um fram­haldið en þar er ekki kveðið á um skýrar tak­markanir.

Fréttin hefur verið uppfærð.