„Ég hef aldrei upplifað annan eins sársauka,“ segir Vilhjálmur prins, hertogi af Cambridge, um dauða móður sinnar, Díönu prinsessu árið 1997.

Í viðtali sem BBC tók við hann í tengslum við heimildarmynd um andleg veikindi segist Vilhjálmur hafa átt afskaplega erfitt með að fóta sig eftir móðurmissinn. En í kjölfarið hafi hann átt auðveldara með að setja sig í spor þeirra sem misst hafa ástvin.

Hann bætir við að fólk eigi ekki að bæla tilfinningar sínar. Bretar eigi það til að gera það. Vilhjálmur segir að fólk þurfi að slaka aðeins á og deila tilfinningum sínum.

„Við erum ekki vélmenni,“ segir hann.

Þá segist hann hafa lært enn betur að ræða tilfinningar sínar þegar hann var þyrluflugmaður í sjúkraflutningum. Þar hafi hann oft þurft að eiga í samskiptum við fjölskyldur sem voru nýbúnar að fá verstu mögulegu fréttir sem hægt er að fá.

„Ég fann þessa hráu tilfinningu gerjast innra með mér og ég vissi hreinlega að þetta myndi hafa áhrif og valda mér vandræðum. Ég varð að tala um það.“

Heimildarmyndin sem um ræðir heitir Tackling Mental Health og verður hún frumsýnd á BBC One á sunnudagskvöld.