Aldrei hefur staðið til að leggja niður starf­semi dag­setursins Vinjar og ung­linga­smiðjanna Stígs og Traðar fyrr en búið er að tryggja aðrar út­færslur á þeirri þjónustu sem veitt er. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Reykja­víkur­borg. Þá kemur fram að unnið sé að um­breytingu þjónustunnar í sam­ráði við fag­fólk og hag­aðila.

„Fjallað er um breytingar á Vin, Stíg, og Tröð í stórum pakka af hag­ræðinga- og um­bóta­til­lögum sem sam­þykktar voru í borgar­stjórn á þriðju­dag og er það hluti af þeim til­lögum sem nú fara til frekari vinnslu og út­færslu í fagráði, í þessu til­felli vel­ferðar­ráði. Meðal þess sem skoðað verður er hvort hægt verði að út­víkka þjónustuna og ná til fleiri not­enda, og hvort hægt verði að sam­eina annarri þjónustu," segir í til­kynningunni.

Reykja­víkur­borg leggi á­herslu á að ekki komi til skerðingar á lífs­gæðum þess hóps sem sækir Vin og þeirra ung­linga sem njóti þjónustu smiðjanna.

Fyrr í dag sendu landssamtökin Geðhjálp frá sér fréttatilkynningu þar sem samtökin lýstu yfir áhyggjum vegna fyrirhugaða niðurskurðartillagna borgarstjórnar er snúa að velferðarúrræðum. Þar var sérstaklega talað um fyrirhugaða lokun Vinjar, en það er athvarf fyrir fólk sem býr við geðrænar áskoranir.

Tekið er fram í ályktun Geðhjálpar að borgin átti ekki samtal við Geðhjálp fyrir lokun eins og hafði verið lagt til í tillögu meirihluta borgarstjórnar að yrði gert.

„Boðaðar tillögur virðast hafa verið unnar með hraði og án samtals eða samráðs við hagaðila,“ segir í ályktuninni og að sú erfiða staða sem er í mörgum sveitarfélögum hafi bitnað á einstaklingum sem eigi rétt á þjónustu hjá þeim.

„ Það eru því talsverð vonbrigði að niðurstaða fjárhagsáætlunar sé niðurskurður á annars viðkvæmu velferðarkerfi sveitarfélaganna.“

Geðhjálp hefur um árabil bent á að geðheilbrigðiskerfið á Íslandi er vanfjármagnað en samkvæmt nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar eru framlög til málaflokksins um fimm prósent af öllum framlögum til geðheilbrigðismála. Á sama tíma er áætlað umfang geðheilbrigðismála af heildinni í kringum 25 prósent. Geðhjálp bendir auk þess að stór hluti þessa fjármagns fer í meðferð og endurhæfingu en vill að meira sé sett í forvarnir.