„Ég er 65 ára og hef aldrei misst úr Þjóðhátíð, ég missti ekki einu sinni af henni árið 1973, þá var hún haldin einn dag og er ég búin að fara síðan í vagninum með mömmu og pabba,“ segir Guðbjörg Hrönn Sigursteinsdóttir.

Annað árið í röð er Þjóðhátíð blásin af vegna heimsfaraldurs.„Maður tekur því sem að höndum ber, við höfum upplifað eldgos og ýmislegt,“ segir Guðbjörg sem ætlar að njóta hátíðarinnar með fjölskyldu sinni.

„Á föstudeginum er haldið hátíðarkaffi klukkan þrjú eftir setninguna sem er yfirleitt í dalnum en verður í garðinum,“ segir Guðbjörg. „Börn og barnabörn koma og er ég að skreyta brauðtertu í þessum töluðu orðum.“

Þau hjónin grilluðu með syni sínum í gærkvöldi. „Svo látum við bara ráðast hvernig þetta verður, við gerum eins gott úr þessu og hægt er,“ segir Guðbjörg.

Aðspurð hvort einhverjar aðrar hefðir ríki í kringum hátíðina segir Guðbjörg það ekki vera sérstaklega. Hún fari í íslenska þjóðbúninginn ef veðrið er gott.

Áður fyrr var fjölskyldan alltaf með lunda í hvíta tjaldinu í Herjólfsdal en Guðbjörg segir að nú þegar lundastofninn eigi erfitt uppdráttar vilji þau ekki veiða hann lengur.

„Þetta er mikil fjölskylduhátíð og pabbi minn elskaði hana jafn mikið og við öll,“ segir Guðbjörg.„Þegar pabbi var níræður heimsótti ég hann á dvalarheimili aldraðra. Það var spáð kulda um kvöldið og ég spurði hann hvort hann vildi ekki bara vera heima því það væri svo kalt í dalnum. Hann horfði stórum augum á mig,“ rifjar Guðbjörg upp.

Faðir hennar hafi ekki tekið í mál að missa af brennunni. „Hann mætti í dalinn um kvöldið og var þetta hans síðasta Þjóðhátíð.“

Að sögn Guðbjargar læddist hún með manninum sínum í dalinn í fyrra þegar það var kveikt á brennunni. „Ég missti ekki af brennunni heldur þá,“ segir hún kímin.„Við erum búin að kaupa streymi á Brekkusönginn og allt er „reddí“ fyrir það,“ segir Guðbjörg og biður fyrir góða kveðju og óskar öllum gleðilegrar helgar.