Þó svo flestir bílaframleiðendur keppist nú við að rafmagnsvæða bíla sína hefur olíunotkun aldrei verið meiri í heiminum en einmitt nú. Á þriðja ársfjórðungi ársins fór dagleg olíunotkun í 100,3 milljónir olíutunna og hafði aukist um 2,3% á milli ára og um 1,3% frá síðasta ársfjórðungi. Á þessum þriðja ársfjórðungi jókst olíframleiðsla OPEC ríkjanna um 500.000 tunnur á dag og um 400.000 tunnur í Bandaríkjunum. Framleiðsla eldsneytis úr landbúnaðarafurðum (Biofuel) jókst einnig um 300.000 tunnur á dag á milli þessara ársfjórðunga. 

International Energy Agancy spáir 102 milljóna olíutunna notkun á dag á næsta ári. Það er því ekki enn komið að því að toppnum sé náð í olíunotkun í heiminum og ekki víst að svo verði í bráð þó svo bílafloti heimsins eyði minna af eldsneyti á hvern bíl en áður. Ekki hjálpar síaukin flugvélanotkun, siglingar og flutningar á vörum.