„Það er allt vitlaust að gera,“ segir Daníel Már Magnússon, skósmiður og eigandi Þráins skóara á Grettisgötu. Fimm vikna bið er nú eftir að koma skóm í viðgerð hjá Daníel og hefur biðin aldrei verið lengri frá því hann hóf störf fyrir fimm árum.

Hluti ástæðunnar fyrir biðinni er að hann þurfti að fara í sóttkví í tvær vikur og því enginn að vinna á meðan. „Þá væri ég líklega búinn að vinna þetta eitthvað niður.“

Daníel hefur ýmsar grunsemdir um hvers vegna það sé svona mikil ásókn í skóviðgerðir núna, en skósmiðir sem hann hefur rætt við kannast við svipaða ásókn í viðgerðir. „Auðvitað grunar mann að þetta sé vegna þess að fólk eyði meiri tíma heima hjá sér og sé minna að ferðast. Það fer mikið í gönguferðir og svoleiðis. Þetta er örugglega líka vegna þess að fólki leiðist,“ segir hann.

„Ég hef verið að ræða við iðnaðarmenn, það er allt vitlaust að gera hjá flísurum og smiðum. Þeir eru margir bókaðir marga mánuði fram í tímann. Fólk er bara að hanga heima. Fer að skoða parketið, flísarnar og skóna sína.“

Daníel segir að mikið sé um gönguskó, sérstaklega í sumar.

Þá er einnig minna um samkeppni. „Frá því að ég byrjaði á þessu fyrir fimm árum hefur einni skóvinnustofu verið lokað á ári. Flestar vegna þess að fólk er að fara á eftirlaun.“ Sjálfur er hann 29 ára og telur að mögulega sé hann yngsti skósmiður landsins. Þráinn skóari, sem þjálfaði Daníel, er sjálfur hættur og seldi Daníel reksturinn.

Daníel, sem stoppar ekki að vinna á meðan hann talar, reiknar með að hann nái að gera við fimmtíu til sextíu pör á dag. „Þú getur rétt ímyndað þér hvað það eru mörg pör inni á skrifstofu sem fólk á eftir að sækja.“ Hann tekur fram að þó að biðin sé að meðaltali fimm vikur sé hann duglegur að redda fólki sem þarf skóna fyrr og þá á kostnað þeirra sem þurfa skóna ekki fyrr en á næsta ári.

Það var á tímabili útlit fyrir að neyslumynstur þjóðarinnar hefði breyst svo mikið að skósmiðir væru að deyja út. „Þráinn sagði mér að hlutirnir hefðu verið mjög svartir rétt áður en ég byrjaði að vinna hérna.“ Mögulega spilar aukin umhverfisvitund inn í viðsnúninginn. „Þegar það var farið að tala mikið um umhverfisvitund þá kom smá sprengja. Mér finnst að fólk sé að halda meira í hlutina og kaupa meiri gæði sem endast lengur.“

Nefnir hann sem dæmi erlendan ferðamann sem kom til hans fyrir nokkru. „Skórnir sem hann var með voru frá 1978, keyptir í Minnesota. Hann hafði ekki tölu á hvað hann var búinn að sóla þá oft, en það var ekki ein rifa í leðrinu. Þeir voru reyndar vel mettaðir af olíu.“

Daníel vinnur einn við að gera við skó í versluninni, en hann hefur aðstoð við afgreiðslu og fleira. Vinnudagarnir eru langir. „Ég opna hálf níu, er oftast kominn fyrr. Svo loka ég sex og fer heim til að hugsa um börnin. Síðan kem ég aftur á kvöldin ef ég get, ég þarf líklega að auka það ef ég á að ná öllu fyrir jól.“