Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir myndbirtingu af lögregluþjónum þar sem búið er að setja á þá hettu sem kenndar eru við samtökin Ku Klux Klan vera óforsvaranlega.

Myndin sem um ræðir var birt í Facebook-hópnum Pírataspjallinu í gær en var fljótlega fjarlægð af stjórnendum. Áður hafði henni verið deilt á Facebook-síðunni Íslenskir meistarar.

„Það er ömurlegt að sjá þessa mikilvægu umræðu þróast út í þennan ógeðfellda leðjuslag. Það verður aldrei í okkar nafni,“ skrifar Þórhildur Sunna í færslu á Facebook-síðu sinni.

Vísir greindi frá myndbirtingunni og ræddi hana við Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Sagðist hann vera sorgmæddur yfir því hvernig umræðan um lögregluna hafi þróast eftir að fjallað var um það að lögreglumaður hafi borið merki með tengsl við öfgahópa og kynþáttahyggju.

„Undiraldan í málflutningi er að það sé útbreitt kynþáttahatur innan lögreglunnar sem lögreglumenn eru algjörlega ósammála að sé. Sumt af þessu sem maður hefur séð er afar sorglegt,“ sagði Ásgeir Þór í samtali við Vísi.

Þá sagðist hann hafa fengið áðurnefnda mynd senda til sín í gær.

Lögreglumenn tóku illa í ummæli Þórhildar

Á miðvikudag sagði lögreglukonan sem bar merkin umdeildu að það hafi komið sér í opna skjöldu að þau hafi verið túlkuð með neikvæðum hætti.

Í kjölfarið sagði Þór­hildur Sunna á Al­þingi að van­þekking á merkjunum benti til þess að annað­hvort skorti lög­reglu­menn mikil­væga fræðslu um rasísk og of­beldis­full merki eða þá að ras­ismi og of­beldis­full menning fái að grassera innan lög­reglunnar.


Margir lögreglumenn tóku illa í þessi ummæli og kölluðu sumir jafnvel eftir því að hún myndi segja af sér þingmennsku.

Þórhildur hefur óskað eftir því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu komi á fund Allsherjar- og menntamálanefndar til að ræða rasisma innan lögreglunnar. Samþykkti nefndin að halda fundinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Þetta var óforsvaranleg mynd sem deilt var á Pírataspjallinu í gær og stjórnendur spjallsins fjarlægðu hana að...

Posted by Þórhildur Sunna Ævarsdóttir on Friday, October 23, 2020