Enn er óvissuástand vegna snjó­flóða­hættu í Súða­víkur­hlíð. Hættu­á­standi var lýst yfir klukkan 21 í gær­kvöldi eftir að snjóflóð féll á veginn. Vegurinn var opnaður á ný klukkan 11 en með þeim fyrir­vara að enn væri ó­vissu­á­stand.

Alls voru 25 manns stranda­glópar á Súða­vík eftir að veginum var lokað í gær­kvöldi en Rauði krossinn, í sam­starfi við sveitar­fé­lagið, opnað fjölda­hjálpar­stöð í í­þrótta­húsinu þar sem fólki bauðst að gista.

„Við tókum á móti 25 manns en það gistu 20 í fjölda­hjálpar­stöðinni. Aðrir gátu út­vegað sér gistingu hjá ættingjum eða öðrum,“ segir Aðal­heiður Jóns­dóttir, teymis­stjóri neyðar­varna hjá Rauða krossi Ís­lands.

Hún segir að hópnum hafi strax verið skipt upp, vegna sótt­varna, en að það fari vel um þau og að þeim bjóðist að vera í salnum þar til vegurinn verður opnaður á ný.

„Það er að taka stöðuna á veginum og núna var verið að út­búa morgun­mat og svo ef þörf er á, verður há­degis­verður á eftir. Það verður opið eins lengi og þörf er á og ef það verður,“ segir Aðal­heiður.

Hún vissi ekki hvaðan fólkið var en vissi að í hópnum væru ein­hver börn á ferð með for­eldrum sínum.

Óhætt að ryðja þegar snjóflóð fjalla

Hlynur Haf­berg Snorra­son, yfir­lög­reglu­þjónn á Vest­fjörðum, segir að veginum um Súða­víkur­hlíð hafi verið lokað í gær­kvöldi eftir að það féll snjó­flóð þar um klukkan 21. Á­ætlað hafði verið að loka veginum klukkan 22 þegar Vega­gerðin hættir sinni þjónustu á veginum en á­kveðið var að gera það fyrr.

„Lokunin hangir saman við þjónustu Vega­gerðarinnar. Henni lýkur á þeim tíma þannig það er verið að hreinsa veginn stans­laust þangað til en svo þegar það fer að verða erfitt fyrir fólk að keyra, án þess að hika, þá fer hættan að aukast að snjó­flóðið lendi á bíl,“ segir Hlynur auk þess sem að þau aukist hættan á að fólk aki bílnum sínum á aðra bíla.

Hann segir að fólk vilji vita með góðum fyrir­vara hve­nær loki því oft komi það langt að og það hafi verið á­kveðið um klukkan 19 að loka klukkan 22 um nóttina en eftir að snjó­flóðið féll um klukkan 21 var á­kveðið að loka fyrr.

„Það er aldrei hægt að reikna snjó­flóð hundrað prósent út, en stundum er það þannig að það er talið ó­hætt að ryðja snjó­flóð og halda veginum opnum. Eitt snjó­flóð þýðir ekki endi­lega að það þurfi að loka veginum í sólar­hring. Þetta er alltaf mat hverju sinni,“ segir Hlynur og á­réttar að þeirra mark­mið sé á­vallt að tryggja öryggi fólks.

Hann segir að í nótt hafi fallið snjó­flóð í Eyrar­hlíð á milli Hnífs­dals og Ísa­fjarðar í nótt og því hafi þeim vegi einnig verið lokað en hann hefur einnig verið opnaður á ný. Hann átti ekki endi­lega von á því að vegirnir yrðu lokaðir í allan dag en að lög­reglan væri í góðu sam­starfi við Veður­stofuna sem að kannar að­stæður vel áður en þeir verða opnaðir aftur. Þá muni Vega­gerðin hreinsa vegina svo hægt sé að aka um þá.

„Það getur verið að Veður­stofan meti það þannig að gilin, eða far­vegirnir, séu búnir að hreinsa sig og þá sé ó­hætt. Það eru margir þættir sem spila inn í,“ segir Hlynur.

Gul viðvörun til 17

Gul veður­við­vörun er á Vest­fjörðum þar til klukkan 17 í dag. En á vef Veður­stofunnar kemur fram að það megi búast við hvassri sunnan­átt og tals­verði rigningu og í kjöl­farið auknu af­rennsli og vatna­vöxtum í ám og lækjum sem að auki hættuna á flóðum og skriðu­föllum. Einnig er aukið álag á frá­veitu­kerfi og er fólk hvatt til að huga að niður­föllum til að forðast vatns­tjón.

Hann hvetur veg­far­endur til að fylgjast vel með veður­spá á vef Veður­stofunnar og færð vega á vef Vega­gerðarinnar auk þess sem gagn­legt geri verið að fylgjast með því á hvaða tímum vegir eru þjónu­staðir og hve­nær þjónustu lýkur.

„Það er gott að haga ferða­lögum eftir því,“ segir Hlynur.

Eitt snjóflóð þveraði veginn

Jón­þór Ei­ríks­son, íbúi í Súða­vík, deildi í gær á Face­book-síðu sinni mynd af veginum þar sem mátti sjá snjó yfir öllum veginum og bíla sem voru fastir í því.

„Fjöldi allur af snjó­flóðum í hlíðinni. Eitt sem var það stórt að það þveraði veginn. Bíll fastur í flóðinu og annar sem þurfti að draga hann úr því. Flutninga­bíll kyrr­stæður austan­meginn við flóðið og beið eftir að Vega­gerðin kæmi að moka. Svo myndaðist hala­rófa af bílum vestan­meginn við flóðið í von um að annað væri ekki á leiðinni. Þetta er ó­við­unandi á­stand,“ sagði Jón­þór.

Í at­huga­semdum við færsluna hans, sem margir hafa deilt, má sjá að fleiri sem óku sama veg lentu í flóði og til­kynntu það til Vega­gerðarinnar áður en tekin var ákvörðun um lokun.