Enn er óvissuástand vegna snjóflóðahættu í Súðavíkurhlíð. Hættuástandi var lýst yfir klukkan 21 í gærkvöldi eftir að snjóflóð féll á veginn. Vegurinn var opnaður á ný klukkan 11 en með þeim fyrirvara að enn væri óvissuástand.
Alls voru 25 manns strandaglópar á Súðavík eftir að veginum var lokað í gærkvöldi en Rauði krossinn, í samstarfi við sveitarfélagið, opnað fjöldahjálparstöð í íþróttahúsinu þar sem fólki bauðst að gista.
„Við tókum á móti 25 manns en það gistu 20 í fjöldahjálparstöðinni. Aðrir gátu útvegað sér gistingu hjá ættingjum eða öðrum,“ segir Aðalheiður Jónsdóttir, teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossi Íslands.
Hún segir að hópnum hafi strax verið skipt upp, vegna sóttvarna, en að það fari vel um þau og að þeim bjóðist að vera í salnum þar til vegurinn verður opnaður á ný.
„Það er að taka stöðuna á veginum og núna var verið að útbúa morgunmat og svo ef þörf er á, verður hádegisverður á eftir. Það verður opið eins lengi og þörf er á og ef það verður,“ segir Aðalheiður.
Hún vissi ekki hvaðan fólkið var en vissi að í hópnum væru einhver börn á ferð með foreldrum sínum.
Súðavíkurhlíð: Vegurinn mun opna um kl 11:00. Óvissustig verður áfram í gildi. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) January 17, 2022
Óhætt að ryðja þegar snjóflóð fjalla
Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, segir að veginum um Súðavíkurhlíð hafi verið lokað í gærkvöldi eftir að það féll snjóflóð þar um klukkan 21. Áætlað hafði verið að loka veginum klukkan 22 þegar Vegagerðin hættir sinni þjónustu á veginum en ákveðið var að gera það fyrr.
„Lokunin hangir saman við þjónustu Vegagerðarinnar. Henni lýkur á þeim tíma þannig það er verið að hreinsa veginn stanslaust þangað til en svo þegar það fer að verða erfitt fyrir fólk að keyra, án þess að hika, þá fer hættan að aukast að snjóflóðið lendi á bíl,“ segir Hlynur auk þess sem að þau aukist hættan á að fólk aki bílnum sínum á aðra bíla.
Hann segir að fólk vilji vita með góðum fyrirvara hvenær loki því oft komi það langt að og það hafi verið ákveðið um klukkan 19 að loka klukkan 22 um nóttina en eftir að snjóflóðið féll um klukkan 21 var ákveðið að loka fyrr.
„Það er aldrei hægt að reikna snjóflóð hundrað prósent út, en stundum er það þannig að það er talið óhætt að ryðja snjóflóð og halda veginum opnum. Eitt snjóflóð þýðir ekki endilega að það þurfi að loka veginum í sólarhring. Þetta er alltaf mat hverju sinni,“ segir Hlynur og áréttar að þeirra markmið sé ávallt að tryggja öryggi fólks.
Hann segir að í nótt hafi fallið snjóflóð í Eyrarhlíð á milli Hnífsdals og Ísafjarðar í nótt og því hafi þeim vegi einnig verið lokað en hann hefur einnig verið opnaður á ný. Hann átti ekki endilega von á því að vegirnir yrðu lokaðir í allan dag en að lögreglan væri í góðu samstarfi við Veðurstofuna sem að kannar aðstæður vel áður en þeir verða opnaðir aftur. Þá muni Vegagerðin hreinsa vegina svo hægt sé að aka um þá.
„Það getur verið að Veðurstofan meti það þannig að gilin, eða farvegirnir, séu búnir að hreinsa sig og þá sé óhætt. Það eru margir þættir sem spila inn í,“ segir Hlynur.
Gul viðvörun til 17
Gul veðurviðvörun er á Vestfjörðum þar til klukkan 17 í dag. En á vef Veðurstofunnar kemur fram að það megi búast við hvassri sunnanátt og talsverði rigningu og í kjölfarið auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem að auki hættuna á flóðum og skriðuföllum. Einnig er aukið álag á fráveitukerfi og er fólk hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.
Hann hvetur vegfarendur til að fylgjast vel með veðurspá á vef Veðurstofunnar og færð vega á vef Vegagerðarinnar auk þess sem gagnlegt geri verið að fylgjast með því á hvaða tímum vegir eru þjónustaðir og hvenær þjónustu lýkur.
„Það er gott að haga ferðalögum eftir því,“ segir Hlynur.
Eyrarhlíð: Vegurinn er opinn. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) January 17, 2022
Eitt snjóflóð þveraði veginn
Jónþór Eiríksson, íbúi í Súðavík, deildi í gær á Facebook-síðu sinni mynd af veginum þar sem mátti sjá snjó yfir öllum veginum og bíla sem voru fastir í því.
„Fjöldi allur af snjóflóðum í hlíðinni. Eitt sem var það stórt að það þveraði veginn. Bíll fastur í flóðinu og annar sem þurfti að draga hann úr því. Flutningabíll kyrrstæður austanmeginn við flóðið og beið eftir að Vegagerðin kæmi að moka. Svo myndaðist halarófa af bílum vestanmeginn við flóðið í von um að annað væri ekki á leiðinni. Þetta er óviðunandi ástand,“ sagði Jónþór.
Í athugasemdum við færsluna hans, sem margir hafa deilt, má sjá að fleiri sem óku sama veg lentu í flóði og tilkynntu það til Vegagerðarinnar áður en tekin var ákvörðun um lokun.