Það er alltaf tilefni til að minna á það á aldrei að gefa gæludýr í jólagjöf, segir Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar. Fólk verði að ákveða upp á eigin spýtur að eignast gæludýr enda fylgi þeim mikil skuldbinding.
„Það er rosalega mikil skuldbinding að taka að sér dýr. Þetta er fjárhagsleg skuldbinding og þú þarft að skuldbinda tíma þinn mörg ár fram í tímann,“ segir Valgerður.
Hún segir aðspurð að útlit sé fyrir að slíkum gjöfum fari fækkandi hér á landi, ekki síst vegna aukinnar umræðu og vitundarvakningar, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla. Þó séu alltaf dæmi um að fólk gefi sínum nánustu gæludýr í jólapakkann.
Skiljanlegt að loka yfir hátíðirnar
Breska ríkisútvarpið greindi frá því í gær að þýskt dýraathvarf hafi ákveðið að loka hjá sér yfir hátíðirnar til þess að koma í veg fyrir að dýrin rati í jólapakkana, enda sé um lifandi verur að ræða sem þurfi að huga að og hlúa.
Valgerður segir ákvörðunina skiljanlega en að ekki hafi verið þörf á að loka hjá Dýrahjálp um hátíðirnar því hérlendis sé fólk almennt meðvitað um að ákvörðun um að eignast dýr sé aldrei léttvæg. Þá þurfi þeir sem ættleiði dýr hjá Dýrahjálp að undirrita skjöl sem staðfesta að viðkomandi verði eigandinn.
„Það er gerður ættleiðingasamningur við manneskjuna sem verður eigandinn, því það er svo margt sem fylgir því að eiga dýr. Það fylgir því svo margt að vera gæludýraeigandi. Það þarf lausnir við alls konar hlutum. Það þarf að geta fengið pössun, til dæmis ef viðkomandi er að fara til útlanda eða í sumarbústað þar sem þú mátt ekki hafa dýrin og svo framvegis og framvegis,“ segir Valgerður.
„Ef þú ætlar að sinna dýrinu á þann hátt að þú uppfyllir lágmarksreglugerðir um dýrahald þá kostar það mjög mikið, til dæmis að viðhalda bólusetningum og ormalyfjum og ef eitthvað kemur fyrir þá kostar sitt að fara til dýralæknis. Eins ef þú vilt vanda til vals við fóður þá kostar það líka sitt. Þannig að þetta er ofboðslega mikið og ef þú vilt skuldbinda manneskju í svona rosalega stóran pakka þá er það ekki sniðug hugmynd.“

Lokaðir inni meirihluta sólarhrings
Dýraathvörf um allan heim minna árlega á að ekki eigi að gefa gæludýr í jólagjafir – og benda á, líkt og Valgerður, allar þær skuldbindingar sem dýrunum fylgja. Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands, ritaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hún sagði að sá siður hafi myndast á Íslandi að geyma hunda í ferðabúrum.
„Sums staðar eru þeir lokaðir inni í þessum búrum yfir nóttina og svo hleypt út til pissa á morgnana. Lokaðir aftur inni í búrum yfir daginn á meðan eigandinn er að vinna og síðan hleypt út síðdegis. Þessir hundar eru því hreinlega lokaðir inni í ferðabúrum meiri hluta sólarhringsins. Svo eru þeir jafnvel lokaðir aftur inni í búrum allt kvöldið,“ skrifaði Hallgerður, en pistil hennar má lesa hér.