Útgáfu Mynda mánaðarins, eins vinsælasta tímarits landsins, hefur verið hætt eftir að hafa verið fáanlegt frítt á öllum helstu sölustöðum landsins síðustu 26 ár. Bergur Ísleifsson, stofnandi tímaritsins, stóð vaktina frá 1994 til 2005 og síðan aftur frá 2011 til dagsins í dag.

Bergur, sem býr í Nanning í Kína, segir að gróflega metið hafi hann fjallað um 8.400 til 9.000 kvikmyndir. Hann fékk hugmyndina um kvikmyndablað í ársbyrjun 1993. „Ég hafði mikinn áhuga á kvikmyndum og taldi mig vel ritfæran. Svo fór að ég gaf út blaðið Bíómyndir og myndbönd í ágúst 1993 með Jurassic Park á forsíðunni,“ segir Bergur.

Myndmark, samtök myndbandaleiga, tóku yfir útgáfuna og úr varð Myndbönd mánaðarins frá og með febrúar 1994. Bergur hélt sig þá við að skrifa. Blaðið breyttist lítið fyrir utan að myndir í bíó bættust við árið 2006 og blaðið varð Myndir, ekki Myndbönd, mánaðarins.

Myndbönd mánaðarins var alltaf hægt að fá á vídeóleigum landsins, þegar þær dóu út ein af annarri var byrjað að dreifa blaðinu í verslunum.

Bergur segir ekki hægt að velja eina eftirminnilega mynd. „Það var alltaf erfiðara að skrifa um myndirnar sem fengu slaka dóma. Það eru alltaf einhverjir sem finnst ekkert varið í myndirnar sem fá bestu dómana, þá eru líka alltaf einhverjir sem hafa gaman af þeim sem fá slökustu dómana,“ segir Bergur. „Á öllum þessum tíma sem ég hef skrifað blaðið hef ég aðeins einu sinni sagt það hreint út að myndin sem ég er að skrifa um sé léleg. Ég man ekki hvaða mynd það var.“

Stefán Unnarsson, útgáfustjóri hjá Myndmark, segir auglýsingamarkaðinn erfiðan. Betra sé að hætta áður en komið sé í óefni. Hann bendir á að tímaritið hafi ávallt verið vinsælt hjá krökkum. „Börnin elska blaðið og það hefur verið sérlega vandað til verka hvað varðar íslenskuna. En ég hef mestar áhyggjur af því að upplýsingar um kvikmyndir muni nú einungis verða fáanlegar á ensku.“

Bergur tekur í sama streng. „Auðvitað er enginn skortur á upplýsingum um kvikmyndir á netinu. Blaðið hafði samt þá sérstöðu að vera á íslensku.“

Forsíðan hefur alltaf ráðist af því hvaða mynd er líklegust til vinsælda á hverjum tíma. Hefur því blaðið bæði skartað Strumpunum og Hannibal Lecter á forsíðu. „Ég man að umdeildasta forsíðan var Saw á sínum tíma. Mynd af afsagaðri hendi.“ Það er hins vegar eitt „leyndarmál“ við blaðið sem Bergur er tilbúinn að upplýsa um. „Það hefur aldrei sést sígaretta í blaðinu. Kannski í einhverjum plakötum þar sem annað var ekki hægt, en annars aldrei.“