Í dag voru 688 nemendur brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Hörpu og er þetta stærsta brautskráning háskólans frá stofnun hans árið 1998. Met var einnig sett hjá Háskóla Íslands við útskrift í dag þar sem meira en 2.500 nemar brautskráðust úr grunn- og meistaranámi.
Alls útskrifuðust 479 nemendur úr grunnnámi og 209 úr meistaranámi. Vegna samkomutakmarkana var útskriftinni skipt í tvennt og útskrifuðust nemendur tæknisviðs fyrir hádegi en samfélagssviðs eftir hádegi.
Flestir voru brautskráðir af verkfræðideild eða 154, þar af 81 með meistaragráðu. Þar á eftir kom viðskiptafræðideildin með 145 brautskráða nemendur, þar af 50 með meistaragráðu.
Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, flutti ávarp við athöfnina.
„Lykillinn að því að skapa sem mest verðmæti án þess að ganga á sameiginlegar auðlindir er að nýta menntun, þekkingu og nýsköpun. Á Íslandi eru gríðarleg tækifæri til að skapa betra samfélag þar sem jafnrétti, sanngirni, vellíðan og heilbrigði eru í fyrirrúmi. Um allan heim er tæknibylting einnig að skapa tækifæri til að gera meira og betur, á grunni sjálfvirkni, gervigreindar, gagnagreiningar, líftækni og margs fleira. Öll þessi tækifæri kalla á vel menntaða og hæfa einstaklinga og forsenda þess að geta nýtt þau, er geta til afla þekkingar og nýta hana til að finna nýjar lausnir. Menntun þarf að vera í takti við þarfir samfélagsins og í takti við þarfir nemenda sem eru mismunandi og alltaf að breytast og fjölbreytni og stöðug framþróun eru þess vegna forsendur öflugs háskólastarfs á Íslandi,“ sagði hann meðal annars í ræðu sinni.
