Í gær greindust um 10 þúsund ný smit kórónuveirunnar á Ítalíu. Svo mörg smit hafa ekki greinst í þar í landi frá því að faraldurinn hófst en Ítalía fór einna verst í Evrópu út úr fyrstu bylgju faraldursins í vor. Í fyrstu bylgjunni náði faraldurinn hámarki þann 21. mars þegar rúmlega 6.500 manns greindust á einum sólarhring. Alls hafa 36.400 manns látið lífið vegna Covid-19 þar í landi og 391 þúsund smitast.

Er þetta þriðji dagurinn í röð þar sem metfjöldi smita greinist í landinu.

Óróleiki í landinu

Ítalir eru órólegir vegna aukinna smita þar í landi en ríkisatjórnin hefur reynt að minna fólk á að mun fleiri séu skimaðir fyrir veirunni núna en í vor.

Samkvæmt ítalska fréttamiðlinum, Local voru yfir 150 þúsund sýni tekin síðastliðin sólarhring.

Gripið hefur verið til hertari sóttvarnaraðgerða í landinu, börum og veitingastöðum hefur m.a. verið gert að loka fyrr á kvöldin og bann hefur veirð sett á ákveðnar íþróttaiðkanir.