Aldrei hafa fleiri Banda­­­ríkja­­­menn látist af völdum of stórra skammta af vímu­efnum á einu ári. Fleiri deyja nú af völdum of­­­skammta þar í landi heldur en í bíl­­­slysum, skot­á­rásum og jafn­vel flensu og lungna­bólgu. Heildar­fjöldinn er ná­lægt fjölda dauðs­­­falla af völdum sykur­­­sýki, sem er sjöunda al­­­gengasta bana­­­meinið þar í landi.

Sér­­­­­fræðingar telja að helstu á­stæðurnar fyrir þessari þróun sé vaxandi notkun á ópíóíða­lyfinu fenta­­­nýl á meðal fíkla og á­hrif heims­far­aldurs Co­vid-19 sem hefur gert marga not­endur vímu­efna ein­angraða og án nokkurs stuðnings.

Frá apríl í fyrra til apríl í ár létust meira en hundrað þúsund Banda­­­ríkja­­­menn úr of stórum skömmtum sam­­­kvæmt bráða­birgða­­­tölum frá heil­brigðis­yfir­­­völdum og er þetta í fyrsta sinn sem meira en hundrað þúsund manns látast af þeim sökum. Þetta er 30 prósenta aukning frá fyrra árs­­­tíma­bili þar sem þeir voru 78 þúsund og hefur dauðs­­­föllum vegna of stórra skammta fjölgað um 50 prósent síðan árið 2015.

Frá minningar­at­höfn um fólk sem látist hefur úr of­skömmtum í Massachusetts í fyrra.
Fréttablaðið/EPA

Sótt­varna­eftir­lit Banda­ríkjanna (CDC) hafði áður greint frá því að árið 2020 hafi um 93 þúsund manns látist af völdum of­­skammta, sem er hæsti fjöldi sem mælst hefur á einu almanaks­ári. Robert Ander­­son, yfir­­­maður töl­­fræði um dánar­or­­sakir hjá CDC, segir að heildar­fjöldi dauðs­­falla árið 2021 muni lík­­lega verða meiri en hundrað þúsund.

„2021 er að fara að verða hræði­­legt,“ sagði Dr. Daniel Cic­­carone, sér­­­fræðingur í eitur­lyfja­­stefnu við Kali­­forníu­há­­skóla í San Francisco í sam­tali við AP. Kat­herine Keyes, sér­­­fræðingur í vímu­efna­notkun við Columbia há­­skóla í New York segir tölurnar á­takan­­legar. „Þetta um­­­fang af dauðs­­föllum vegna of­­skammta er eitt­hvað sem við höfum ekki séð áður hér í landi,“ segir hún.

Fjölgar um land allt

Mest hefur aukningin verið í Kali­­­forníu, Tenesee, Lousiana, Mississippi, Vestur-Virginíu og Ken­tucky, um 50 prósent. Þó sker Ver­mont sig úr en þar hefur aukningin numið um 85 prósentum. Í tíu ríkjum hefur aukningin verið um 40 prósent. Þeim fækkaði einungis í þremur ríkjum, New Hamps­hire, New Jer­s­ey og Suður-Dakóta.

Tölur frá því í septem­ber benda hins vegar til þess að dregið hafi úr fjölda þeirra sem látast af þessum sökum en sér­­­fræðingar sem New York Times ræðir við segja að það sé ekki á­­stæða til bjart­­sýni.

„Þetta eru tölur sem við höfum aldrei séð áður. Þau skilja eftir sig vini, fjöl­skyldu og börn, ef þau eiga börn, svo það eru margar af­leiddar af­leiðingar. Þetta er mikil á­skorun fyrir sam­fé­lag okkar“, segir Dr. Nora Vol­kow, for­stjóri National Insti­tute of Drug Abu­se. Flest þeirra sem látast eru í blóma lífsins, á aldrinum 25 til 55 ára. Þar af eru um 70 prósent þeirra hjá karl­mönnum á aldrinum 25 til 54 ára.

„Ef við hefðum rætt saman fyrir ári, hefði ég sagt þér, dauðs­föllum fjölgar gríðar­lega. En ég hefði aldrei látið detta mér til hugar að þetta yrði svona slæmt,“ segir Dr. Andrew Kolodny hjá Brandeis­há­skóla.

Á­stæða dauðs­fallanna er einkum og sér í lagi fram­boð á ópíóðum á borð við fenta­nýl, sem er hundrað sinnum öflugra en morfín. Fenta­nýl er í sí­vaxandi mæli blandað við vímu­efni til að auka styrk­leika þeirra. „Mörg vildu ekki taka það. En það er það sem er selt og hættan á of stórum skammti er gríðar­lega mikil,“ segir hún. „Mörg látast án þess að vita hvað þau eru að taka inn.“

Sam­þætt á­hrif út­breiðsla fenta­nýls og þjóð­fé­lags­að­stæðna vegna Co­vid-far­aldursins hafa skapað á­stand sem leitt hefur til hinna fjöl­mörgu dauðs­falla. Dauðs­föllum af völdum of stórra skammta af met­am­feta­míni, kókaíni og annarra ópíóða á borð við verkja­lyf hefur einnig aukist. Hingað til hefur ópíóða­far­aldurinn einkum herjað á hvíta Banda­ríkja­menn en nú í auknum mæli á svarta.

Dauðs­föllum vegna of­skammta af verkja­lyfjum á borð við Oxycodone hefur fjölgað.
Fréttablaðið/Getty

Þau sem glíma við vímu­efna­fíkn og eru í bata eru í mikilli hættu á að hefja neyslu á ný. Sam­komu­tak­markanir sökum far­aldursins hafa gert það að verkum að margir fíklar hafa misst stuðnings­net sitt og tíðni and­legra veikinda hefur aukist. Mörg hafa ekki komist í vímu­efna­með­ferð vegna á­standsins enda hefur heil­brigðis­kerfið verið undir miklu á­lagi vegna Co­vid sem hefur komið niður á þjónustu við vímu­efna­neyt­endur.

„Við sjáum að mörg hafa frestað því að leita sér hjálpar og eru nú meira veik,“ segir Dr. Joseph Lee, fram­kvæmda­stjóri Hazelden Betty Ford sam­takanna.

„Það þarf að vera auð­veldara að fá að­stoð en að kaupa sér efni,“ segir Dr. Kolodny.