Aldrei hafa fleiri Bandaríkjamenn látist af völdum of stórra skammta af vímuefnum á einu ári. Fleiri deyja nú af völdum ofskammta þar í landi heldur en í bílslysum, skotárásum og jafnvel flensu og lungnabólgu. Heildarfjöldinn er nálægt fjölda dauðsfalla af völdum sykursýki, sem er sjöunda algengasta banameinið þar í landi.
Sérfræðingar telja að helstu ástæðurnar fyrir þessari þróun sé vaxandi notkun á ópíóíðalyfinu fentanýl á meðal fíkla og áhrif heimsfaraldurs Covid-19 sem hefur gert marga notendur vímuefna einangraða og án nokkurs stuðnings.
Frá apríl í fyrra til apríl í ár létust meira en hundrað þúsund Bandaríkjamenn úr of stórum skömmtum samkvæmt bráðabirgðatölum frá heilbrigðisyfirvöldum og er þetta í fyrsta sinn sem meira en hundrað þúsund manns látast af þeim sökum. Þetta er 30 prósenta aukning frá fyrra árstímabili þar sem þeir voru 78 þúsund og hefur dauðsföllum vegna of stórra skammta fjölgað um 50 prósent síðan árið 2015.

Sóttvarnaeftirlit Bandaríkjanna (CDC) hafði áður greint frá því að árið 2020 hafi um 93 þúsund manns látist af völdum ofskammta, sem er hæsti fjöldi sem mælst hefur á einu almanaksári. Robert Anderson, yfirmaður tölfræði um dánarorsakir hjá CDC, segir að heildarfjöldi dauðsfalla árið 2021 muni líklega verða meiri en hundrað þúsund.
„2021 er að fara að verða hræðilegt,“ sagði Dr. Daniel Ciccarone, sérfræðingur í eiturlyfjastefnu við Kaliforníuháskóla í San Francisco í samtali við AP. Katherine Keyes, sérfræðingur í vímuefnanotkun við Columbia háskóla í New York segir tölurnar átakanlegar. „Þetta umfang af dauðsföllum vegna ofskammta er eitthvað sem við höfum ekki séð áður hér í landi,“ segir hún.
Fjölgar um land allt
Mest hefur aukningin verið í Kaliforníu, Tenesee, Lousiana, Mississippi, Vestur-Virginíu og Kentucky, um 50 prósent. Þó sker Vermont sig úr en þar hefur aukningin numið um 85 prósentum. Í tíu ríkjum hefur aukningin verið um 40 prósent. Þeim fækkaði einungis í þremur ríkjum, New Hampshire, New Jersey og Suður-Dakóta.
Tölur frá því í september benda hins vegar til þess að dregið hafi úr fjölda þeirra sem látast af þessum sökum en sérfræðingar sem New York Times ræðir við segja að það sé ekki ástæða til bjartsýni.
„Þetta eru tölur sem við höfum aldrei séð áður. Þau skilja eftir sig vini, fjölskyldu og börn, ef þau eiga börn, svo það eru margar afleiddar afleiðingar. Þetta er mikil áskorun fyrir samfélag okkar“, segir Dr. Nora Volkow, forstjóri National Institute of Drug Abuse. Flest þeirra sem látast eru í blóma lífsins, á aldrinum 25 til 55 ára. Þar af eru um 70 prósent þeirra hjá karlmönnum á aldrinum 25 til 54 ára.
„Ef við hefðum rætt saman fyrir ári, hefði ég sagt þér, dauðsföllum fjölgar gríðarlega. En ég hefði aldrei látið detta mér til hugar að þetta yrði svona slæmt,“ segir Dr. Andrew Kolodny hjá Brandeisháskóla.
Mörg látast án þess að vita hvað þau eru að taka inn.
Ástæða dauðsfallanna er einkum og sér í lagi framboð á ópíóðum á borð við fentanýl, sem er hundrað sinnum öflugra en morfín. Fentanýl er í sívaxandi mæli blandað við vímuefni til að auka styrkleika þeirra. „Mörg vildu ekki taka það. En það er það sem er selt og hættan á of stórum skammti er gríðarlega mikil,“ segir hún. „Mörg látast án þess að vita hvað þau eru að taka inn.“
Samþætt áhrif útbreiðsla fentanýls og þjóðfélagsaðstæðna vegna Covid-faraldursins hafa skapað ástand sem leitt hefur til hinna fjölmörgu dauðsfalla. Dauðsföllum af völdum of stórra skammta af metamfetamíni, kókaíni og annarra ópíóða á borð við verkjalyf hefur einnig aukist. Hingað til hefur ópíóðafaraldurinn einkum herjað á hvíta Bandaríkjamenn en nú í auknum mæli á svarta.

Þau sem glíma við vímuefnafíkn og eru í bata eru í mikilli hættu á að hefja neyslu á ný. Samkomutakmarkanir sökum faraldursins hafa gert það að verkum að margir fíklar hafa misst stuðningsnet sitt og tíðni andlegra veikinda hefur aukist. Mörg hafa ekki komist í vímuefnameðferð vegna ástandsins enda hefur heilbrigðiskerfið verið undir miklu álagi vegna Covid sem hefur komið niður á þjónustu við vímuefnaneytendur.
„Við sjáum að mörg hafa frestað því að leita sér hjálpar og eru nú meira veik,“ segir Dr. Joseph Lee, framkvæmdastjóri Hazelden Betty Ford samtakanna.
„Það þarf að vera auðveldara að fá aðstoð en að kaupa sér efni,“ segir Dr. Kolodny.