Aldrei hafa fleiri verið hlynnt sölu bjórs og létt­víns í mat­vöru­verslunum á Ís­landi og nú ef marka má könnun Maskínu frá því í september. Við­horf fólks hefur lítið breyst á síðustu mánuðum en þrátt fyrir það mælast að­eins færri and­vígir sölu bjórs og létt­víns en í á­líka könnun sem gerð var síðast­liðinn maí.

Rúm­lega 44% þeirra sem tóku þátt í könnuninni voru hlynnt sölu á létt­víni og bjór í mat­vöru­verslunum en rúm­lega 40% voru and­víg. Fyrir hálfu ári var ör­lítið mjórra á munum en þá sögðust 41,9% til að mynda vera and­vígir sölu á létt­víni. Frá þessu er greint í niður­­­stöðum nýjustu könnunar Maskínu á við­horfum Ís­­lendinga til sölu á­­fengis í mat­vöru­verslunum, en könnunin var fram­­kvæmd nú í sjötta sinn síðan árið 2014.

Meiri and­­staða er meðal Ís­­lendinga ef litið er til sölu sterks víns í mat­vöru­verslunum en tæp­lega 17 prósent eru hlynnt því á meðan um 68 prósent eru and­víg því.

Hér má sjá niðurstöður könnunnar sem Maskína gerði í September.
Mynd/Maskína

Ekki sama hver svarar

Stuðningur við sölu á­fengis í mat­vöru­verslununum virðist breytast mikið milli þing­flokka. Þau sem myndu kjósa Pírata svöruðu í 64 prósent til­vika að þau væru hlynnt sölunni og voru hlynntust af öllum flokkum. Þeir sem kjósa Mið­flokkin eru aftur á móti and­vígastir en tæp­lega 24 prósent voru hlynnt en 66 prósent and­víg sölu létt­víns og bjórs í verslunum.

Karl­­menn eru í öllum til­­­fellum hlynntari sölu á­­fengis í mat­vöru­verslunum en konur, en munur á milli kynjanna er þó mestur þegar litið er til við­horfs þeirra til sölu á sterku víni. Að­eins níu prósent kvenna eru hlynntar því á móti um 24 prósent karla.

Aldur virðist hafa mikil á­hrif á við­horfið en því yngri sem svar­endur voru þeim mun hlynntari voru þau sölu á á­fengi. Kyn­slóða­bilið virðast segja sitt um svörin en elstu svar­endur, sex­tíu ára og eldri, eru í öllum til­fellum and­vígastir á meðan þeir yngstu, sem eru á aldrinum 18 til 29 ára, eru í öllum til­fellum hlynntastir.

Hægt er að kynna sér niður­stöður könnunarinnar á heima­síðu Maskínu.