Alls fékk 631 einstaklingur alþjóðlega vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum í fyrra. Þeim fjölgaði frá fyrra ári þegar 531 einstaklingur fékk vernd. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Útlendingastofnunar.

Útlendingastofnun afgreiddi í fyrra efnislega 685 umsóknir og fleiri umsækjendur fengu jákvæða niðurstöðu en nokkru sinni eða samtals 528 manns. Til samanburðar afgreiddi stofnunin jákvætt 376 umsóknir árið áður. Til viðbótar fengu i fyrra rúmlega hundrað einstaklingar alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi hjá kærunefnd útlendingamála eða vernd sem aðstandendur flóttamanna.

Vegna takmarkana á ferðum til landsins vegna Covid-19 faraldursins fækkaði umsóknum fjórðung frá fyrra ári.

Umsóknirnar voru líkt og fyrr hlutfallslega flestar á Íslandi miðað við hin Norðurlöndin eða 18 á hverja tíu þúsund íbúa. Fæstar voru í Danmörku og Noregi eða þrjár á hverja tíu þúsund íbúa. Umsækjendur um vernd á Íslandi voru af 52 ólíkum þjóðernum en flestir frá Palestínu, Írak og Venesúela. Helmingur þeirra hlaut vernd og þar voru á ferð einstaklingar af 32 þjóðernum.

Helmingur allra umsóknanna 654, barst frá frá einstaklingum sem þegar nutu verndar í öðru Evrópuríki, langflestir í Grikklandi og hafði fjölgað í þeim hópi. Alls 140 einstaklingum var synjað um efnislega meðferð umsóknar um vernd, 52 á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 88 á grundvelli þess að njóta þegar verndar í öðru Evrópuríki.