Mjög hefur dregið úr fasteignaviðskiptum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess hve fáar íbúðir eru til sölu. Eignir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu voru í maí árið 2020 um 1.800 samkvæmt tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Nú eru lausar eignir í fjölbýli aðeins um 250 að sögn formanns Félags fasteignasala, Hannesar Steindórssonar. Framboðið hefur minnkað sjöfalt.

„Það er ofboðslega lítið til. Ég er búinn að vera í þessum bransa í sautján ár og man ekki annað eins. Staðan hefur aldrei verið svona,“ segir Hannes.

Opinber gögn um eignir á skrá segja aðeins hálfa söguna, því inni í fjölda fasteigna til sölu eru hesthús, lóðir, sumarhús, atvinnusvæði og fleira.

Hannes segir að í raun sé heildarframboð íbúða á öllu höfuðborgarsvæðinu aðeins 400 til 500. 60 til 70 einbýlishús eru föl og 60 par- og raðhús. Sum hverfi séu nánast framboðslaus svo sem Vesturbær og Seltjarnarnes. Þá séu aðeins örfáir tugir eigna í fjölbýli til sölu í Kópavogi.

Þrjú til fjögur ár eru þangað til jafnvægi mun nást milli framboðs og eftirspurnar þótt töluvert sé í pípunum af húsnæði í byggingu eða á áætlun, að mati Hannesar. Ójafnvægið þrýstir íbúðaverði upp. 35 til 40 prósent eigna fóru á yfirverði síðustu mánuði á höfuðborgarsvæðinu. Bankar hafa spáð 7-10 prósenta hækkun á verði fasteigna næsta ár.

Áður hefur Fréttablaðið fjallað um að hluti fólks sem vill helst búa á höfuðborgarsvæðinu leiti í húsnæði í nágrannabyggðum vegna stöðunnar. Hannes telur þann hóp ekki hlutfallslega stóran en nefnir sem dæmi að nú seljist allt á Akranesi sem komi á markað.

Eina lausn á framboðsvandanum telur Hannes vera að bæjarfélögum takist að stytta tímann frá upphafi skipulags til byggingarleyfis.