Norskur eigin­maður sem banaði eigin­konu sinni á sér­stak­lega grófan hátt með tugum hnífs­tunga og axar­högga hefur verið dæmdur í þrettán og hálfs árs fangelsi. Þetta kemur fram á vef norska ríkis­út­varpsins, NRK.

Konan fannst myrt í íbúð þeirra hjóna í ágúst í fyrra. Að því er segir í frétt norska ríkis­út­varpsins varð hún 73 ára. Auk þess sem maðurinn var dæmdur til fangelsi­vistar var hann sviptur rétti sínum til arfs eftir konuna.

Maðurinn hringdi í lög­regluna eftir ó­dæðið. „Það hefur slegið út fyrir mér, ég er búin að drepa konuna mína,“ sagði hann í símann. Spurði þá sá sem tók við sím­talinu hvernig það hefði gerst.

„Það hefur slegið út fyrir mér, ég er búin að drepa konuna mína.“

Sagðist ekki muna eftir morðinu

„Ég notaði bæði hníf og exi. Það er mikið af blóði í kring um mig. Ég er hræddur,“ svaraði maðurinn sem að sögn NRK var sýni­lega í ó­jafn­vægi við réttar­höldin.

„Við vorum gift í meira en þrjá­tíu ár. Við áttum okkar þrætur eins og aðrir en höfðum það mjög gott,“ sagði maðurinn í dóms­sal. Sagðist hann ekki muna eftir drápinu en bæði í fyrr­nefndu sím­tali og við yfir­heyrslur hjá lög­reglu sagðist hann vera sá sem myrt hefði konuna.

Wenche Flavik, sem var dómari í málinu tók fram að morðið hafi verið sér­lega of­beldis­fullt.

„Fórnar­lambið gat ekki varið sig. Hún reyndi, það sýna á­verkar sem benda til þess að hún hafiu reynt að nota hand­leggina til að verjast,“ hefur norska ríkis­út­varpið eftir Flavik. „Málið snýst um morð á maka sem framið var á sam­eigin­legu heimili þar sem fórnar­lambið átti að finnast hún vera örugg.“

Dóminum líklega áfrýjað

Verjandi mannsins, Sil­le Heidar, segir í skrif­legu svari til norska ríkis­út­varpsins að dóminum verði trú­lega á­frýjað. Bæði verði þá tekist á um sekt mannsins og sömu­leiðis sé refsingin of hörð jafn­vel þótt sak­fellt verði.

„Morðið er al­gjör­lega ó­skiljan­legt,“ sagði Heidar við réttar­höldin og sagði enga á­stæðu finnast fyrir drápinu.

Norska ríkis­út­varpið kveðst ekki hafa náð tali af Anne Christine Stoltz Wennersten ríkis­sak­sóknara.