Færra fólk á miðjum aldri og eldri borgarar á Íslandi sækja nú nám en áður. Þetta er öfug þróun miðað við Evrópu en hlutfallið er þó með því hæsta hér á landi.

13,7 prósent Íslendinga á aldrinum 50 til 74 ára stundar endurmenntun, símenntun, námskeið eða einhvers konar menntun. Á árunum 2005 til 2016 fór hlutfallið aldrei undir 15 prósent og var 17,9 prósent árið 2012.

Eftir 2016 hefur hlutfallið aldrei náð 15 prósentum og var lægst árið 2020, aðeins 10,8 prósent, sem skýrist líklega af faraldrinum.

Hlutfallið í Evrópu er nú 5,2 prósent og hefur verið að smokrast upp á undanförnum áratugum. Langhæst menntunarhlutfall eldra fólks er í Svíþjóð, 21,6 prósent. Finnar, Hollendingar og Danir eru einnig fyrir ofan Íslendinga á lista. Lægst er hlutfallið í Búlgaríu, aðeins 0,3 prósent.