„Við maðurinn minn vorum búin að vera á Tenerife í mánuð og áttum flug heim fimmta febrúar með tvær stórar töskur. Við fórum út á flug­völl í leigu­bíl með öðru pari, setjum töskurnar á bandið við inn­ritun og þau við hliðina á okkur líka. Og þau sjá okkur setja töskurnar á bandið. Nema hvað, þegar við komum inn í brott­farar­sal föttuðum við að við vorum ekki með neina „slippara“ í höndunum,“ segir Alda Svan­hildur Gísla­dóttir, en þar vísar hún til tösku­miða með strika­merki sem far­þegar fá al­mennt við inn­ritun.

Að sögn Öldu eru hún og maðurinn hennar þaul­vön að ferðast um allan heim án nokkurra vand­kvæða, og því héldu þau að þetta yrði ekkert vanda­mál. Sér­stak­lega þar sem um væri að ræða beint flug til Kefla­víkur. En þegar til Kefla­víkur var komið voru engar töskur á tösku­bandinu.

„Við til­kynnum það strax að það séu engar töskur, og erum búin að standa í því­líku bulli við Play. Í heilan mánuð sögðust þau ætla að finna þær,“ segir Alda. Hún eigi hátt í þrjá­tíu tölvu­pósta síðustu mánuði, þar sem full­trúar Play segjast trúa þeim og að allt verði gert til að finna töskurnar og koma þeim til þeirra sem fyrst.

„Við til­kynnum strax að það séu engar töskur, og erum búin að standa í því­líku bulli við Play. Í heilan mánuð sögðust þau ætla að finna þær“

„En núna fáum við þau svör að þar sem þær voru aldrei inn­ritaðar sé ekki hægt að leita af þeim og því fáum við þær ekki bættar. Síðasta boð sem við fáum frá þeim er 150 þúsund króna inn­eign í flug sem sára­bætur vegna þess hversu lengi þetta hefur dregist,“ segir Alda, og bætir við að hún sé virki­lega von­svikin eftir allan þennan tíma að fá slík svör. Þá sér­stak­lega þar sem verð­mætin í töskunum hlaupi á sjötta hundrað þúsund krónur.

„Þetta er 560 þúsund krónur sem ég taldi saman í töskunni. Ég er nú ekki merkja­kona eða neitt, en ég var með ýmis­legt eins og sléttu­járn sem kostar fjöru­tíu þúsund, gull­kross sem kostar þrjá­tíu og eitt­hvað þúsund og fullt fullt af fötum á barna­börnin,“ segir Alda.

Hún segir málið hið ó­trú­legasta og nú séu þau orðin það svekkt að þau ætli með málið lengra.

„Næsta skref hjá okkur er að fá lög­fræðing í málið vegna þess að við erum orðin svo pirruð yfir þessu og hvernig er komið fram við okkur. Þetta er bara ömur­legt,“ segir Alda.