Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ætlar að hætta á þingi og eignast barn. Hún og eiginmaður hennar Dofri Ólafsson eiga nú von á sínu fyrsta barni.

Aðspurð um næsta kaflann í lífi hennar segir Albertína allt opið og hún ætli að byrja á að takast á við þetta nýja og spennandi hlutverk

„Lífið kemur stöðugt á óvart. Það verður bara gaman að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Albertína í samtali við Fréttablaðið.

Albertína var fyrst kjörin á þing árið 2017 og hafði áður starfað hjá Ísafjarðarbæ, þaðan sem hún er ættuð, og var einnig formaður Fjóðungssambands Vestfirðinga, verkefnastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar á Ísafirði.

Segir hún það hafa verið ómetanlegt að hafa setið á þingi sem fulltrúi Norðausturkjördæmis en að starfið sé kannski ekki sérstaklega fjölskylduvænt, sérstaklega þar sem hún þarf að ferðast mikið til og frá vinnunni. Hún sakni þess alltaf að geta ekki verið meira á Akureyri, þar sem hún býr.

Albertína greindi frá óléttunni og ákvörðun sinni í færslu á Facebook í dag og hafa kollegar hennar óskað henni innilega til hamingju og þakkað henni fyrir gott starf.

„Þetta er ekki auðveld ákvörðun en ég held hún sé sú eina rétta fyrir mig og fjölskylduna á þessum tíma,“ segir Albertína í yfirlýsingu sinni og óskar félögum sínum í Samfylkingunni alls hins besta.

Hún segir í samtali við Fréttablaðið að hún hafi mikla trú á málum sem Samfylkingin hefur talað fyrir á Alþingi og vonar svo sannarlega að það verði stuðningur við málstað þeirra í alþingiskosningum í haust.