Albert­ína Frið­björg Elías­dóttir, þing­kona Sam­fylkingarinnar, af­salaði sér rétti sínum til and­svars á þingi í dag eftir að hún las upp álit minni­hluta at­vinnu­vega­nefndar þegar rætt var á þingi hvort ætti að taka gjald vegna fisk­eldis í sjó og fisk­eldis­sjóður. Albertína afsalaði sér rétti sínum eftir að Gunnar Bragi Sveins­son, þing­maður Mið­flokksins, hafði veitt henni andsvar.

Gunnar Bragi sagði að hann hefði ekki getað kynnt sér ítar­lega álit minni­hlutans og velti fyrir sér muni á á­liti minni- og meiri­hluta. Hann spurði hvort Albertínu þætti það ekki á­hyggju­efni að í til­lögunum væri ekki gert ráð fyrir eða fjallað um hvernig fisk­eldis­sjóður eigi að starfa.

Á meðan Gunnar Bragi lýkur máli sínu má sjá bæði Albertínu og Odd­nýju Harðar­dóttur tala við starfandi for­seta þingsins, Bryn­dísi Haralds­dóttur. Eftir að þær ganga burt til­kynnir Bryn­dís að Albert­ína hafi af­salað sér rétti sínum til að veita and­svar.

Að því loknu kynnti hún Ólaf Ís­leifs­son í pontu.

„Rokkfokkingstig til Albertínu“

Ekki náðist í Albertínu við vinnslu fréttarinnar. Albert­ína er ein af þeim sem að þing­mennirnir sex á Klaustur bar höfðu niðrandi ummæli um í löngu sam­tali sínu þann 20. nóvember síðast­liðinn.

Björn Leví Gunnars­son, þing­maður Pírata, vakti at­hygli á málinu á Face­book-síðu sinni stuttu eftir að at­vikið átti sér stað og sagði „Rokk­fokking­stig til Albertínu sem svaraði ekki and­svari Gunnari Braga. Takk fyrir að vera þú Albert­ína.“

Færslu Björns er hægt að sjá hér að neðan.