Albanskur karl­maður bú­settur hér á landi er grunaður um að hafa orðið Armando Beqirai að bana í Rauða­gerði um síðustu helgi. Um­merki hafa fundist um að hleypt hafi verið af skot­vopni á heimili hans. Þetta herma heimildir Frétta­blaðsins. Vísir greindi fyrst frá.

Maðurinn var í hópi þeirra sem úr­skurðaður í gæslu­varð­hald á mið­viku­dag, en sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins gaf hann sig fram við lög­reglu seint á þriðju­dags­kvöld, með að­stoð verjanda síns. Hvorki hann né aðrir sem eru í haldi lög­reglu hafa játað aðild aðild að málinu.

Maðurinn sem hand­tekinn var að­farar­nótt sunnu­dags, skömmu eftir morðið er ekki bú­settur hér á landi og mun hann ekki vera hinn grunaði skot­maður. Gæslu­varð­hald yfir honum var engu að síður fram­lengt í gær en að­eins um fimm daga.

Tíu eru nú í haldi vegna málsins og eru þeir af ýmsum þjóð­ernum; Ís­landi, Albaníu, Litháen, Eist­landi, Rúmeníu, Portúgal og Spáni. Átta þeirra sæta gæslu­varð­haldi en ekki hefur verið tekin á­kvörðun um hvort gæslu­varð­halds verði krafist yfir tveimur mönnum sem hand­teknir voru í gær.

Lög­reglan rann­sakar nú meðal annars hvort morðið hafi verið skipu­lagt eða jafn­vel fyrir­skipað.

Eini Ís­lendingurinn sem situr í gæslu­varð­haldi hafði undan­farnar vikur, áður en hann var hand­tekinn, haft hóp út­lendra manna í kring um sig, sér til verndar, vegna leka á við­kvæmum gögnum úr lög­reglu­rann­sókn.

Gögnin sýna að um­ræddur maður veitti lög­reglu í­trekað upp­lýsingar um gang mála í undir­heimunum.

„Miðað við um­fangið á þessu morði þá gengur rann­sóknin bara nokkuð vel,“ segir Margeir Sveinsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar.
Fréttablaðið/Stefán

Flestir þeirra sem maðurinn hafði sér til verndar sæta nú gæslu­varð­haldi vegna málsins, þeirra á meðal Lit­háinn sem hand­tekinn var fyrstur allra, vegna málsins, fyrstur var hand­tekinn, íbúð Ís­lendingsins að­fara­nótt sunnu­dags. Fleiri eru þó einnig í haldi sem ekki tengjast Ís­lendingnum sér­stak­lega.

„Miðað við um­fangið á þessu morði þá gengur rann­sóknin bara nokkuð vel,“ segir Margeir Sveins­son, yfir­maður mið­lægrar rann­sóknar­deildar lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu. Að­spurður segir hann lög­regluna ekki hafa upp­lýsingar um fyrir­hugaðar hefndar­að­gerðir sem gætu beinst að þeim sem taldir eru tengjast málinu eða fjöl­skyldum þeirra.

„Við höfum ekki neinar upp­lýsingar um það. Ef við fáum upp­lýsingar um slíkt þá gerum við alltaf við­eig­andi ráð­stafanir,“ segir Margeir og bætir við: „Við höfum þetta alltaf bak við eyrað en höfum engar upp­lýsingar um slíkt.“