Miklar umræður sköpuðust í gær í hverfishóp Laugardalsins um fatasöfnunargáma Rauða krossins sem þar eru staddir en íbúar höfðu fyllt gám sem staðsettur er við Laugalæk og þegar hann var orðinn fullur þá skildu þau pokana eftir fyrir utan gáminn. Einhverjir höfðu svo farið í pokana til að finna sér föt og skilið fötin eftir á víð og dreif.
„Við erum alltaf að reyna að gera allt sem við getum til þess að koma í veg fyrir að akkúrat þetta gerist,“ segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða kross Íslands, í samtali við Fréttablaðið.
Íbúi í hverfi viðraði þá hugmynd að færa tæmingu gámsins á föstudag í stað fimmtudag en Brynhildur segir að þau vinni eftir ákveðnu plani og ef tæmingardagurinn væri færður í Laugardal þá þýðir það einfaldlega að hann verði líka færður annars staðar og það myndi í raun ekki breyta miklu því gámarnir, sem eru 70 til 80 talsins alls, eru allir í svipaðri nýtingu.
„Þeir eru allir ótrúlega vel nýttir, en það eru álagstími núna. Það meira álag á vorin og þegar það er þurrt því svo fáir nenna að labba út með pokana þegar það rigning og það getur verið erfitt að ráða við það þegar allir eru að gera það á sama tíma,“ segir Brynhildur en sem dæmi þá safnaðist þetta mikla magn í Laugardalnum yfir helgina en mikið blíðviðri var og þurrt alla síðustu helgi.
„En okkur þykir þetta mjög leiðinlegt. Því það er mjög líklegt að þetta nýtist okkur ekki þegar þetta fer svona og fötin blotna. Þá enda þau í urðun því þau eru líklega ónýt.“
Samvinnuverkefni með almenningi
Brynhildur segir að þetta sé, með almenningi, samvinnuverkefni. Þau þurfi að standa sig í að tæma og þegar þau fái tilkynningu um fullan gám þá reyni þau að bregðast við því sem fyrst en að almenningur þurfi að taka fötin aftur heim ef að hann er fullur, eða fara með þau annað.
„Ég veit að það er leiðinlegt en ef hann er fullur þá þarf fólk að taka pokann aftur með sér heim og koma aftur eða fara í næsta gám.“
Spurð hvort þau hafi hugsað sér að stækka gámana segir hún að það séu eins gámar um alla Evrópu sem fólk þekki en að á öllum endurvinnslustöðvum Sorpu sé að finna stærri gáma sem er hægt að skila fötum líka í þegar það er opið þar.
„Það er nokkuð svona öruggt veðmál að reyna við Sorpu því gámarnir eru svo stórir þar,“ segir Brynhildur og bætir við:
„Það er takmarkað fjármagn og mannafli en við vitum að við verðum að gera þetta vel svo að fólk vilji taka þátt í þessu með okkur.“
Hér að neðan er hægt að sjá frekar upplýsingar um fatasöfnunargáma Rauða krossins eins og staðsetningu þeirra.