Foreldrar barna með áhættuhegðunar- eða vímuefnavanda eru oft bugaðir vegna ástandsins á heimilinu. Þessir foreldrar upplifa sig úrræðalausa og vita ekki hvert á að leita, þekkja ekki þau úrræði sem í boði eru.
Nú í kjölfar Covid-faraldursins er líðan þeirra ekki góð og þurfa þeir enn frekari á stuðningi að halda.
„Þar sem vandamálin voru fyrir þá gerði faraldurinn illt verra. Við finnum það núna að það er enn meiri þörf á stuðningi en áður,“ segir Berglind Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Foreldrahúss.
Ekki eru vísbendingar um aukið brottfall úr framhaldsskólum vegna faraldursins. „Það er auðvitað frábært. Við vitum að þar stigu foreldarnir inn í, í mörgum tilfellum. Við erum að heyra um mörg dæmi um litla virkni unglinganna, að þau hafi sofið fyrir framan tölvuna í faraldrinum, en þar stigu foreldrar inn og hjálpuðu þeim með heimalærdóminn,“ segir Berglind.
Neysluvandi unglingsins í ofanálag
Fyrir marga veldur vinna og heimilishald nógu álagi án þess að við bætist neysluvandi unglingsins á heimilinu.
„Á sama tíma og við erum að styðja foreldra í að gefa barninu sínu merkingarbært líf og styðja þau í að verða nýtir þjóðfélagsþegnar án neyslu vímuefna, þá styðjum við líka foreldrana til að þeir verði ekki veikir líka. Við höfum náð að bjarga mörgum frá því að fara í kulnun. Það er meira en að segja það að vera foreldri barna sem eitthvað er að. Það á við um sjúkdóma, greiningar en líka neyslu. Neysla barns kostar sterkar taugar,“ segir Berglind.
„Bak við börn sem stunda áhættuhegðun og eru að fikta við neyslu eru sligaðir foreldrar. Sligaðir af skömm, vanmætti, angist og svefnleysi. Þetta getur lamað fólk á vinnumarkaði og haft mikil áhrif á sambandið við makann. Þessi þáttur af neyslu ungmenna er ekki mikið ræddur.“
Þau voru einfaldlega bara uppgefin, álagið var orðið svo mikið, og aldrei sammála um hvernig tækla ætti vandamálið.
Foreldrar uppgefnir
Berglind veit af mörgum skilnuðum sem rekja má til neyslu barns. „Það reynist ekki endilega góð lausn, hvorki fyrir foreldrana né krakkana. Þau voru einfaldlega bara uppgefin, álagið var orðið svo mikið, og aldrei sammála um hvernig tækla ætti vandamálið.“
Meðal ráða sem Berglind hefur uppi í erminni er að marka snemma afstöðu til vímuefna. „Það er mjög hollt að draga mörkin við unglingana og fræða þau um hvenær það er leyfilegt að kaupa áfengi, áfengiskaupaaldur er skýr. Sama á við um fíkniefni, að þau séu ólögleg. Þetta er það sama og með útivistarreglurnar, með þeim er auðvelt að setja reglur og sammælast við aðra foreldra um að þær gildi yfir allan vinahópinn.“
Berglind segir að það sé vel hægt að styðja foreldra í gegnum þessar erfiðu aðstæður, fyrsta skrefið er að ræða við þá sem skilja aðstæðurnar.
„Það er ekki hægt að ætlast til þess að vinir eða fjölskylda skilji aðstæðurnar, fyrir utan skömmina. Margir upplifa sig sem mislukkaða foreldra þegar barnið er komið í neyslu,“ segir hún. „Það er mjög algengt að fólk segi við okkur að það óski þess að hafa fengið stuðning fyrr. Við höfum starfað síðan 1986 og við vitum að það eru ótal foreldrar þarna úti sem þurfa á stuðningi að halda.“