Rúmlega þrjátíu einstaklingar leituðu á bráðamóttöku Landspítalans um liðna helgi vegna hálkuslysa. Slysin voru flest minni háttar en Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á spítalanum, segir álagið hafa verið mikið um helgina. „Þetta eru aðallega beinbrot, skurðir og mar, og svo höfuðhögg þar sem fólk er að detta og reka höfuðið í,“ segir hann.Jón Magnús segir flest slysin verða við heimili fólks eða þegar fólk er að fara inn í og út úr bílum.

„Við hvetjum fólk til þess að salta eða sanda tröppur við heimili sín og nota mannbrodda þegar það er á göngu,“ segir hann. Þá segir hann fæsta þá sem lenda í hálkuslysum þurfa á innlögn á spítalann að halda, fjölgun slíkra slysa auki þó álag á biðtíma á bráðamóttökunni.„Núna erum við hins vegar að sjá það, þegar starfsemi spítalans er að aukast að nýju, að fjöldi einstaklinga sem bíða eftir innlögn fer vaxandi,“ segir hann.

Í gærmorgun biðu 20 einstaklingar á bráðamóttökunni þess að leggjast inn á legudeildir spítalans. „Það er mjög mikill fjöldi og við höfum ekki séð slíkan fjölda síðan í upphafi þessa árs,“ bætir Jón Magnús við.

Í janúar á þessu ári var skipaður átakshópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins og Landspítala til að finna lausnir á álagsvanda bráðamóttökunnar og fólust tillögur hópsins, sem kynntar voru í febrúar, einkum í því að auka heimahjúkrun og að opnuð yrði líknardeild á Landakoti.Þá var sett fram stefnumarkandi ákvörðun af hálfu spítalans um að þeir sjúklingar á bráðamóttöku sem þarfnist innlagnar flytjist sem fyrst á viðeigandi legudeildir, gert verði ráð fyrir að sjúklingar bíði ekki innlagnar lengur en í sex klukkustundir að hámarki.

Jón Magnús segir fjölda þeirra sjúklinga sem nú bíði innlagnar koma til vegna aukins álags vegna COVID-19 en einnig vegna þess að ekki sé hægt að útskrifa fjölda sjúklinga sem í raun hafi lokið sjúkrahúsdvöl sinni, slíkur sé skortur á hjúkrunarrýmum.„Á Vífilsstöðum, sem er skilgreind biðdeild, eru í heildina 50 einstaklingar á bið eftir hjúkrunarheimili og því til viðbótar bíða 35 einstaklingar í bráðaleguplássum,“ segir hann.

„Ef þessir einstaklingar hefðu geta komist í rétta þjónustu þá væru ekki 20 einstaklingar að bíða hér á bráðamóttökunni,“ bætir Jón Magnús við.„Þessir einstaklingar fá þjónustu á bráðamóttökunni en hún er bæði verri og dýrari en ef hún væri veitt á réttum stað. Við auðvitað reynum okkar besta en við getum ekki veitt einstaklingi sem þarf á legudeildarþjónustu að halda þá þjónustu sem hann þarf á bráðamóttökunni,“ segir hann.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum.
Fréttablaðið/Ernir