Alls hafa 423 mál verið tilkynnt til barnaverndar Mosfellsbæjar það sem af er ári. Nefndin kynnti skýrslu sína fyrir Fjölskyldunefnd bæjarins í vikunni. Langflest málin komu í október eða 79, þar af tilkynnti lögreglan um 35 þeirra. Oftast er tilkynnt um vanrækslu, ofbeldi og áhættuhegðun.

Skýrslan nær til október og tilkynnir lögreglan um langflest málin eða 229. Foreldrar tilkynntu um 43 mál og grunnskólar um 32.

Í skýrslunni kemur fram að tilkynningar um heimilisofbeldi séu 72 það sem af er ári. „Erfitt er að segja til um hvort um sé að ræða einangrað tilvik eða hvort þessi fjöldi tilkynninga muni halda áfram. Eins og áður er ekki vitað hvort um aukningu vegna COVID sé að ræða,“ segir í skýrslunni. Bent er á að þrátt fyrir aukinn fjölda í október varðandi heimilisofbeldi nái það ekki þeim fjölda tilkynninga sem bárust í janúar á þessu ári.

Guðrún Marinósdóttir, stjórnandi barnaverndar, segir í sinni skýrslu að álagið sé gífurlegt á starfsmenn. Álagið sé mælt með svokallaðri málavog sem mæli vinnuálag en sé ekki mælikvarði á gæði vinnunnar. „Eftir þessar fjórar mælingar er ljóst að upp á hefur vantað í starfsmannafjölda í málaflokknum, samkvæmt málavoginni, til að álag á starfsmenn sé með þeim hætti sem málavog telur viðunandi. Alla fjóra mælingarmánuðina, sem spanna eitt ár, virðist sem á vanti á sviðið ef miðað er við niðurstöðu vogarinnar. Samræmist það tilfinningu starfsmanna þegar þeir eru spurðir. Í öllum fjórum mælingum segja flestir starfsmenn að allt of mikið sé að gera, sem er stig 5 af 5 í tilfinningu starfsmanns fyrir álagi samkvæmt málavoginni,“ skrifar Guðrún.