Talsverður erill var hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins síðasta sólarhringinn. Talsvert var um sjúkrabílaútköll síðustu nótt tengdum skemmtanahaldi og bættust við þau önnur bráðatilvik sem sjúkrabílar þurftu að sinna.
Þetta kemur fram í Facebook færslu hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Mikael Smári Mikaelsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, segir álaginu á bráðamóttöku hafa verið lýst sem viðráðanlegu en flestir sem leituðu til bráðamóttöku gerðu það vegna slysa tengdum áfengisneyslu eða ofbeldis.
„Álagið í nótt var ekki meira en oft á laugardögum,“ sagði Mikael í samtali við Fréttablaðið. Hann segir aðfaranótt laugardags hafa verið annasamari en aðfaranótt sunnudags.
Hann segir deildina hafa verið að fást við sömu mál báðar nætur en málin hafi verið fleiri fyrri nóttina. „Föstudagurinn var talsvert verri, mikill fjöldi fólks og yfirálag,“ segir hann.
Aðspurður hvort álagið sé árstíðartengt svarar Mikael: „Ég er ekki viss um að þetta tengist sumri sérstaklega. Ég held þetta tengist fríum og hátíðarhöldum meira, þá eru fleiri að skemmta sér. Svo voru auðvitað mánaðamót og fólk fékk útborgað.“
Mikael segir þó ekkert eitt ráða þessu. „Ég get ekki sagt fyrir víst hvað ræður þessu en það er á þessum tíma sem maður finnur einna helst fyrir þessu. Þegar veður er betra, fólk í fríi eða hefur meiri pening um hönd,“ segir hann.
