Það var að beiðni Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að Ísland gekk út af fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í vikunni sem kom í veg fyrir að það væri hægt að úrskurða um griðarstað hvala í Suður-Atlantshafi.

Þetta kom fram í svari Matvælaráðuneytsins til Fréttablaðsins við því hvort að matvælaráðherra hefði gefið fulltrúum Íslands á fundinum tilmæli um að sniðganga fundinn.

„Í ljósi þess að endurmat á afstöðu Íslands í hvalveiðimálum stendur yfir var tekin ákvörðun af matvælaráðherra um að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslunni,“ kom fram í svari frá Matvælaráðuneytinu.

Fulltrúar Íslands á fundinum voru þeir Jón Stefánsson, Stefán Ásmundsson, Guðjón Sigurðsson og Kristján Loftsson.

Eins og fjallað var um í Fréttablaðinu í vikunni vakti fjarvera Íslands áhuga enda var með því ljóst að ekki væri hægt að taka bindandi ákvörðun vegna fjölda þeirra sem voru fjarverandi.

Þegar Fréttablaðið sendi fyrirspurn á Matvælaráðuneytið barst svar að það væri gert til að huga að lýðræðislegu sjónarmiði og koma í veg fyrir að þvingaðar aðgerðir væru samþykktar í fjarveru smáríkja.

„Fjöldi ríkja, einkum þróunarríkja, hafa ekki haft tök á því að senda sína fulltrúa. Á fundinum hafa fulltrúar bent á þessa stöðu, einkum fulltrúar þróunarríkja í Afríku og eyríkja í Karíbahafi. Fulltrúarnir hafa bent á að óeðlilegt sé að taka mikilvægar ákvarðanir á þessum fundi þegar rödd þeirra ríkja sem ekki eru viðstödd getur ekki heyrst. Jafnframt er bent á að þetta sé í andstöðu við lýðræðislega umræðu innan Alþjóðahvalveiðiráðsins þar sem á þessum fundi hefur verið reynt að ná fram samstöðu í mikilvægum málum. Ísland styður lýðræðislega umræðu og það sjónarmið að nauðsynlegt sé að rödd þessara ríkja geti heyrst.“

Í svari Matvælaráðuneytisins kemur fram að hópur ríkja hafi reynt að þvinga fram atkvæðagreiðslu.

„Ísland hefur jafnframt bent á að nauðsynlegt sé að þær tillögur sem settar eru fram á fundinum fullnægi þeim skilyrðum sem sett eru í stofnsamningi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Hópur ríkja reyndi á fundinum að þvinga fram atkvæðagreiðslu um tillögu sem Ísland metur að fullnægi ekki áðurnefndum skilyrðum. Þar af leiðandi telur Ísland óeðlilegt að gengið sé til atkvæða um slíka tillögu þegar skilyrðum stofnsamningsins er ekki fullnægt og fjöldi aðildarríkja hefur ekki tök á því að tjá sig efnislega um viðkomandi tillögu með þátttöku og umræðum á ársfundinum.“