Sema Erla Serdar, formaður hjálparsamtakanna Solaris, greinir frá því í opinni færslu á Facebook í dag að ríkissaksóknari hafi fellt úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að fella niður kæru hennar á hendur Margréti Friðriksdóttur, rit­stjóra Fréttin.is.

Baráttukonan þjóðþekkta kærði Margréti fyrir hatursglæp, morðhótanir og líkamsárás í ágúst árið 2018. Nú hefur ríkissaksóknari lagt fyrir lögreglustjóran á höfuðborgarsvæðinu að ljúka rannsókn málsins, en meint árás átti sér stað fyrir bráðum fjórum árum.

„Í ágúst 2018 fór ég á lögreglustöðina á Hverfisgötu til þess að leggja fram kæru á hendur Margréti Friðriksdóttur fyrir hatursglæp, morðhótanir og líkamsárás eftir að hún réðst á mig fyrir utan bar í Reykjavík um verslunarmannahelgina það ár.“ skrifar Sema á Facebook en í færslunni gagnrýnir hún vinnubrögð lögreglunnar í málinu harðlega.

„Ólíðandi vinnubrögð af hálfu lögreglu“

„Það tók lögreglu um eitt og hálft ár að heyra í vitnum og boða hana í skýrslutöku. Með því að draga málið með þeim hætti gaf lögreglan henni fóður til þess að níðast á mér á netinu með svívirðilegum ærumeiðingum og persónuníði sem hún byggði meðal annars á því að ég hafi logið til um kæru sem hún síðan skreytti með alls kyns viðbjóði. Það eru ólíðandi vinnubrögð af hálfu lögreglu.“

Sema segist hafa heyrt fyrst um niðurfellingu málsins er hún las um hana í fjölmiðlum í fyrra. Hún minnist á að í bréfi lögreglustjórans hafi kæra hennar verið „smættuð niður í hótanir“.

Þá segir hún að í skýrslutöku hafi lögregluþjónn haldið því fram að hún gæti ekki kært líkamsárás ef hún væri ekki með áverka. Síðan segist hún hafa lært að það sé ekki svo einfalt, og að lögrelguþjónninn hefði átt að vita betur.

„Það sem verra er, og kemur meðal annars fram í gögnum sem ég hef nú undir höndum eftir að niðurfelling á málinu var kærð, er að ekki hafi verið litið til fyrri samskipta kæranda og kærðu og ummæla sem sú sem er kærð hefur látið um mig falla við meðferð málsins!“ skrifar Sema.

„Gögn málsins sýna fram á að Margrét hafi ráðist á mig og hótað mér og ástæðan fyrir því liggur fyrir ásamt einhvers konar játningu. Samt er málið látið falla niður. Kerfið okkar verndar ekki þolendur hatursorðræðu og hatursglæpa. Það vinnur hreinlega á móti okkur.“

Elstu skilaboðin frá 2014

Hún segir að frá árinu 2014 hafi Margrét skrifað um sig og til sín skilaboð þar sem hún ásakar hana um gyðingahatur og segir hana styðja við íslamska hryðjuverkastarfsemi.

„Meðferð lögreglunnar á þessari kæru minni er yfirvöldum til háborinnar skammar. Hún ber merki um algjört áhugaleysi, þekkingarleysi og hreinlega leti.“ segir Sema í færslu sinni og heldur því fram að kerfið á Íslandi verndi ekki þolendur hatursorðræðu og hatursglæpa.

Sema segir að með ákvörðun ríkissaksóknara fái yfirvöld tækifæri til að sýna fram á að þolendur hatursorðræðu og hatursglæpa njóti verndar réttarríkisins. Hún biðlar til þeirra að nýta tækifærið.