Hneyksli, geðþótti, afturhvarf til pólitískra ráðninga.

Þessi orð eru meðal þeirra sem fallið hafa eftir að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, skipaði Hörpu Þórsdóttur þjóðminjavörð án auglýsingar.

„Maður getur deilt um hvort þetta séu pólitískar ráðningar en í öllu falli bjóða þær hættu á geðþótta heim. Ég sé ekki betur en um sé að ræða brot á allri stjórnsýslu,“ segir Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur.

Haukur segir meginreglu að fara þurfi vel með almannafé og ráða þann hæfasta. Til að vita hver sé hæfastur þurfi að auglýsa störf eins og stöðu þjóðminjavarðar. „Þá reglu brýturðu ef þú auglýsir ekki,“ segir Haukur.

Hins vegar segir Haukur að þegar stöður sambærilegar þjóðminjaverði losni skuli allir jafnir frammi fyrir ríkinu. „Sú skylda er ekki uppfyllt nú,“ segir Haukur.

Með því að enginn annar geti sótt um sé enginn annar aðili máls, enginn geti kallað eftir rökstuðningi. Haukur spyr einnig hvað gerist þegar ráðherra sem hafi handvalið fjölda fólks í embætti fari frá við stjórnarskipti.

„Erum við að fara frá norræna módelinu til Ameríku þar sem gera þarf starfslokasamninga við heilan hóp af fólki og handráða nýtt fólk? Hvaða glufu er verið að opna? Þetta er grundvallarbreyting í íslenskri stjórnsýslu,“ segir Haukur.

Doktor Þóra Pétursdóttir, dósent í fornleifafræði og menningararfsfræðum við Oslóarháskóla, skrifar Lilju Dögg ráðherra opið bréf í Fréttablaðinu í dag. Þóra bætist í hóp fjölmargra óánægðra úr fornleifa- og safnaheiminum hér á landi sem hafa gagnrýnt vinnubrögð ráðherra án þess að rýrð sé varpað á persónu Hörpu eða fyrri störf hennar. Þóra lýsir yfir vonbrigðum og óskar skýringa.

„Eins og staðið var að ráðningu nýs þjóðminjavarðar á dögunum verður ekki séð að færi hafi verið gefið á nauðsynlegri umræðu,“ skrifar Þóra.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands, sagði í Fréttablaðinu á laugardag að ráðningin væri hneyksli. Ýmis félög og samtök innan geirans hafa sent frá sér harðorðar yfirlýsingar síðustu daga.

Þrír síðustu ráðuneytisstjórar hafa með sömu aðferð og Lilja skipar þjóðminjavörð nú verið handvaldir með tilfærslu embættismanna án auglýsingar. 36. grein starfsmannalaga sem heimilar slíkt er undanþáguákvæði.

Lilja var vegna ferðalaga ekki sögð hafa tök á að svara spurningum Fréttablaðsins með beinum hætti. Í svörum ráðuneytis kom fram að Harpa Þórsdóttir hefði áður en hún varð safnstjóri Listasafns Íslands stýrt safnastarfi og tekið þátt í umbreytingarferlum. Hún þekki vel til opinberrar stjórnsýslu og hafi starfað sem stjórnandi safna um árabil og menntað sig sérstaklega í breytingastjórnun.

„Með tilliti til farsællar stjórnunarreynslu, víðtækra starfa innan safnageirans og góðrar þekkingar á málefnum Þjóðminjasafnsins, ákvað menningar- og viðskiptaráðherra því að nýta heimild í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins til að flytja embættismann milli stofnana og skipa Hörpu Þórsdóttur þjóðminjavörð.“

„Ég kýs að tjá mig ekki um málið,“ sagði Harpa Þórsdóttir, nýskipaður þjóðminjavörður, þegar viðbragða hennar var leitað.

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur