Kínverjar hafa svarað ákvörðun Bandaríkjanna um að láta leyniþjónustuna rannsaka hvort Covid-19 eigi uppruna sinn í tilraunastofu í Wuhan með kröfu um að tilraunastofa í Maryland verði rannsökuð. Það er rannsóknarstofa bandaríska hersins í Fort Detrick.

„Hvaða leyndarmál eru falin í hinu mjög svo grunsamlega Fort Detrick og þeim 200 bandarísku rannsóknastofum sem eru um heim allan?“ spyr Zhao Liljan, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins.

Ósk Joes Biden Bandaríkjaforseta um að uppruni veirunnar verði rannsakaður í Wuhan hefur vakið nokkra athygli. Enda bergmálar hún orð fyrrverandi forseta, Donalds Trump, sem þóttu bera merki samsæriskenninga fremur en alvöru álitaefna.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, greindi frá því í Fréttablaðinu í gær að ekkert væri í hendi til að styðja við það að veiran hefði orðið til á tilraunastofu. Hann telur einnig að ósk Bidens sé fyrst og fremst sett fram í pólitískum tilgangi heima fyrir. Það er til að sverja af sér fylgispekt við Kínverja sem hann hefur verið sakaður um af Repúblikönum og Trump sérstaklega. En Trump virðist ekki ætla að sleppa taki sínu á flokknum í bráð.

„Þessi kenning um tilraunastofuna er ekki vísindaleg af því að það er ekki hægt að afsanna hana,“ segir Kári. „Það er ekkert ólíklegt að það geti gerst að einhver sem vinni með veiru sýkist. Ef hann sýkist getur hann borið veiruna út af rannsóknastofunni. En við höfum ekkert í höndunum sem styður þetta.“

Kári telur að ósk Bidens sé fyrst og fremst sett fram í pólitískum tilgangi heima fyrir.
Fréttablaðið/Ernir

Kári segir að auk þess að byggja á afskaplega litlum upplýsingum skapi þessi getgáta leiðindatilfinningu á tíma þar sem fordómar ríkja gagnvart fólki af asískum uppruna. „Kínverjar eru stór og merkileg þjóð með ríka sögu og mikið af afspyrnu góðu fólki,“ segir Kári. „Ég er hins vegar ekki hallur undir það stjórnkerfi sem þar ríkir.“

Aðspurður hvort hann telji þessar deilur stórveldanna hamla baráttunni gegn Covid-19 á einhvern hátt segir Kári svo ekki vera. Hann hefur meiri áhyggjur af því hversu lítið af bóluefni fari til fátækari þjóða heimsins og að hluti fólks, sérstaklega í Bandaríkjunum, hafni bólusetningu þegar hún bjóðist.

Þetta þýði þó ekki að tilraunastofudeilan hafi neinar afleiðingar. „Þessi ákvörðun Bidens er ekki til neins annars fallin en að auka úlfúð milli Bandaríkjanna og Kína,“ segir Kári. Ef hægt væri á einhvern hátt að sýna fram á að veiran væri manngerð þá myndi það ekki skipta neinu máli í stóra samhenginu. Kínverjum yrði ekki refsað fyrir slys á tilraunastofu. „Þessi umræða hjálpar okkur ekki í baráttunni við þessa veiru eða veirur framtíðarinnar.“