Samkvæmt upplýsingum frá Stoðdeild ríkislögreglustjóra sem sér um framkvæmdir á ákvörðunum Útlendingastofnunar ákvað Amin Ghaysza­deh sjálfur að hafa ekki samband við lögmann sinn eða annan aðstandanda á Íslandi eftir að honum hafði verið gert ljóst að honum yrði vísað úr landi.

Amin hafði verið í hungurverkfalli í 17 daga þegar lögregla sótti hann á sunnudag á Grensásveg, þar sem hann hafði dvalið undanfarnar vikur, og flutti hann á lögreglustöð áður en honum var svo vísað úr landi í gærmorgun. Þar segir lögreglan hann hafa neytt bæði matar og drykkja og því slitið hungurverkfalli sínu.

Amin hafði verið í hungurverkfalli frá því þann 23. ágúst, til að mótmæla yfirvofandi brottvísun sinni til Grikklands. Hann óttaðist um bæði heilsu sína og líf yrði hann sendur þangað aftur. Hann sagði í viðali við Fréttablaðið fyrir tæpri viku síðan að hann vildi frekar deyja á Íslandi, en í Grikklandi, og því hefði hann ákveðið að hefja hungurverkfall.

Stoðdeild ríkislögreglustjóra sér um framkvæmdir á ákvörðunum Útlendingastofnunar frá Íslandi. Á heimasíðu þeirra segir að á meðan undirbúningstíma stendur sé haft reglulega samband við hann sem eigi að flytja úr landi, bæði í gegnum síma og með heimsóknum. Það sé útskýrt fyrir þeim hvað sé í vændum og spurningum þeirra svarað.

„Ef viðkomandi er ósáttur við niðurstöðu síns máls og þá fyrirhugaða framkvæmd er þeim bent á að hafa samband við lögmann sér til aðstoðar og hefur stoðdeild einnig í sambandi við þann lögmann til að halda öllum upplýstum.“

Þegar að framkvæmd kemur fara lögreglumenn að dvalarstað viðkomandi, sem var í tilfelli Amin húsnæði Útlendingastofnunar á Grensásvegi. Þar er framkvæmdin hafin og segir á heimasíðu að allt verklag sé unnið þannig að „fyllsta öryggis og mannúðarsjónarmiða sé gætt.

Öryggis- og mannúðarsjónarmið í forgangi

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um hvort verklagi hafi verið breytt segir Guðbrandur Guðbrandsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sem er yfir stoðdeildinni, að verklaginu hafi ekkert verið breytt og að öryggis- og mannúðarsjónarmið séu í forgangi hjá stoðdeildinni.

„Hvert tilfelli er skoðað en þau eru margbreytileg eins og málin eru mörg,“ segir Guðbrandur.

Spurður hvort einhver ástæða hafi verið fyrir því að lögmaður hafi ekki verið látinn vita segir Guðbrandur að þeim aðilum sem eigi að flytja úr landi sé aldrei neitað að hafa samband við lögmann eða aðra sem þykir ástæða til að tilkynna um framkvæmdina.

„Í þessu ákveðna máli var þetta verklag viðhaft og ef hann hefur ekki haft samband við neinn á Íslandi fyrir brottför þá er það hans ákvörðun,“ segir Guðbrandur.

Fengu vottorð læknis

Amin hafði, eins og áður segir, verið í hungurverkfalli áður en honum var vísað úr landi. Guðbrandur segir að stoðdeildin hafi fengið vottorð læknis um ástand Amin vegna framkvæmdarinnar og tekur fram að Amin hafi slitið hungurverkfallinu þegar komið var á lögreglustöðina, en þar dvaldi hann nóttina fyrir brottvísun.

„Viðkomandi borðaði vel af mat og drykk á lögreglustöðinni sem hann dvaldi fyrir brottförina og það sama á við á leiðinni í fluginu frá Íslandi til Grikklands,“ segir Guðbrandur að lokum.

Þrátt fyrir tilraunir blaðamanns hefur ekki tekist að ná í Amin sjálfan.

Í gærmorgun var hinum 26 ára gamla Amin Ghayszadeh vísað úr landi til Grikklands. Amin hafði verið í hungurverkfalli frá því þann 23. ágúst, til að mótmæla yfirvofandi brottvísun sinni til Grikklands. Hann óttaðist um bæði heilsu sína og líf yrði hann sendur þangað aftur. Hann sagði í viðtali við Fréttablaðið fyrir viku síðan að hann vildi frekar deyja á Íslandi, en í Grikklandi, og því hefði hann ákveðið að hefja hungurverkfall.

Æskilegt að fá lágmarksfyrirvara

Lögmaður Amin, Magnús D. Norðdahl, gagnrýndi í gær að hann hafi ekki verið látinn vita af brottvísuninni og sagði að ákveðið misræmi væri til staðar við málsmeðferð stoðdeildar ríkislögreglustjóra við undirbúning og framkvæmd lögreglufylgdar úr landinu.

„Æskilegt væri að allir fengju lágmarksfyrirvara, sérstaklega þegar um er að ræða einstaklinga í viðkvæmri stöðu,“ sagði Magnús í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær í tilefni af brottvísuninni.