„Þessar tillögur eru algert lágmark ef miðað er við almennan atvinnumarkað. En við höfum aldrei haft þetta í íþróttunum,“ segir Sif Atladóttir, landsliðskona, sem er sjálf í fæðingarorlofi núna í Svíþjóð þar sem hún býr og spilar með Kristianstad.
Hún segir að undanfari þessara tillaga sé tímamótasamningur sem körfuboltakonur í Bandaríkjunum gerðu í fyrra um fæðingarorlof. Sá var fyrsti sinnar tegundar og gildir í átta ár.
„Þetta var skref deildarinnar til að sýna að þau styðji við þessi réttindi kvenna í íþróttinni hjá sér. Þetta er samningur sem er manni fyrirmynd. Það er allt frá fæðingarorlofi til fjárhagsstuðnings til þeirra sem eiga erfitt með að eignast börn. Þá er einnig stuðningur fyrir barnapössun og allskonar sem er að finna þar sem við horfum til og þurfum að skoða,“ segir Sif.
Hún segir að samningurinn sem FIFA hefur lagt til og eigi að skoða í desember sé ofboðslega mikilvægur fyrir konur í knattspyrnu.
„Ég held að þessi reglugerð staðfesti okkar starfsgrein sem það. Ekki bara sem hobbí,“ segir Sif.

Hafa þurft að hætta atvinnumennsku
Hún segir að hingað til hafi flestar þeirra kvenna sem hafi ákveðið að eignast börn þurft að hætta atvinnumennsku þegar að því kom.
„Það gildir eflaust það sama um knattspyrnuna og aðrar íþróttir fyrir konur að það hefur hingað til verið ákveðinn dauðadómur þegar þú hefur orðið ólétt. Það er bara sama sem merki að þú sért hætt. Það hefur oftast verið þannig að samningur rennur út eða hann ekki endurnýjaður,“ segir Sif.
Hún segir að þetta sé klárlega einn liður í því að konur hafi ekki verið eins langlífar í íþróttinni og karlmenn.
„Mér finnst það sorglegt að hugsa til þess hversu margar hafa hætt um 26 eða 27 ára aldur því það var ekki möguleiki fyrir þær að æfa eftir að hafa verið ólétt,“ segir Sif.
Spurð hvort hún telji að margar konur hafi hreinlega frestað sínum barneignum vegna þess að þær hafi vitað að það væri endastöð segir Sif það mjög líklegt.
„Sú umræða hefur komið upp hjá örugglega flestum sem eru farnar að huga að barneignum að taka eitt ár í viðbót eða klára tímabilið eða stefna á einhverja keppni og svo sé hægt að huga að barneignum. Ég fékk þessa hugsun þegar ég fór að huga að barneignum. Ég hugsaði að ég myndi taka Evrópumótið 2009 og eftir það væri ég sátt við að hætta. Sú hugsun var þá en svo fór ég í atvinnumennsku og þá hugsaði ég að ég myndi klára hana og fara svo í barneignir,“ segir Sif.
Hún segir að hún viti vel til þess að fleiri knattspyrnukonur hafi hugsað á þennan hátt og nefnir sem dæmi landsliðsfélaga sinn Guðbjörgu Gunnarsdóttur sem eignaðist tvíbura fyrr á árinu.
„Hún talar um þetta. Hún var að eignast sín fyrstu börn núna 35 ára og hefur talað um að ef hún hefði upplifað þetta sem möguleika hefði hún gert þetta fyrr því það er auðveldara að koma aftur 27 ára eða 35 ára. Svo auðvitað er það þannig að maður veit aldrei hvað gerist. Því lengra sem þú bíður því erfiðara getur verið að verða ólétt,“ segir Sif.
Hafa þurft að fara á hörkunni
Sif segir að allir punktar tillögunnar hangi vel saman og segir að hún sé ánægð að fjallað sé um stuðning við konur þegar þær snúa aftur.
„Þegar konur hafa áður komið til baka þá hefur það verið þannig að þær hafa þurft að sjá um sig sjálfar og taka þetta á hörkunni og keyrt sig áfram. Núna verður kannski meira komið fram við þetta eins og langtímameiðsli og betur hugsað til þess að konan þarf aðlaga sig og þurfi mögulega að vera í einhverju fríi eða taka börnin stundum með,“ segir Sif.
Í því tilliti nefnir hún sem dæmi mikilvægi tillögu sem fjalli um mikilvægi þess að leikmaður geti verið með barn á brjósti og gefið því.
„Þetta gerir þetta meira barnvænt. Það er ekkert hlaupið að því að vera með tveggja eða þriggja mánaða barn og fara svo á tveggja til þriggja klukkutíma æfingu og geta ekki sinnt því,“ segir Sif.
Hún segir að það komi eflaust upp margar spurningar þegar tillögurnar verða teknar fyrir hjá FIFA í desember en vonar að þær verði samþykktar.
„Það er mikilvæg þessi hugsun að klúbburinn þurfi að aðlaga sig að leikmanninum. Þú ert ekki bara að fá leikmanninn, heldur leikmanninn og lítið barn sem stendur og fellur með móðurinn á þessum tímapunkti,“ segir Sif.

Samningaviðræður í Svíþjóð
Sif segir að staðan sé álíka um allan heim og fæðingarorlofið sé ekki tryggt neins staðar. Hún segir að í Svíþjóð, þar sem hún er, sé þó vinna langt á veg komin.
„Sem leikmenn erum við með heildarsamninga sem allir leikmenn eru hluti af. Við erum í samningaviðræðum við deildina um betri kjör og þar er verið að búa til stefnu um þungun í samningunum. Það gerir það að verkum að við verðum fyrsta deildin í heiminum sem er með stefnu hvað varðar þungun leikmanna. Það myndi gera sænsku deildina mjög aðlaðandi fyrir konur,“ segir Sif.
Sif segir að það sem henni líki einnig við í tillögunum að gert er ráð fyrir að klúbburinn geti sótt sér leikmann utan hefðbundins félagaskiptaglugga. Þá er glugginn í raun opinn þar til að konan, leikmaðurinn, snýr aftur úr fæðingarorlofi.
„Annað hvort væri framlengt sjálfkrafa því að félagið sæi ekki hag sinn í að missa leikmanninn eða vitandi að þegar leikmaðurinn kemur aftur þá er hún laus. Það er ofboðslega stór punktur fyrir félagið. Sérstaklega í kvennaheiminum þá er ekki mikið fjármagn og það er „budgeretað“ fyrir 21 leikmönnum og ef tvær detta út þá er mikill munur að vera bara með 19 leikmenn. Það er rosalega mikilvægt fyrir félögin að það væri ekki að missa leikmenn og þyrfti að borga heldur gæti sótt sér leikmenn,“ segir Sif.
Vonast til þess að konum um allan heim verði tryggð sömu réttindi
Sif segir að hún vonist til þess að það niðurstaða fáist í málið í desember þegar er tekið fyrir hjá FIFA. Hún segist vonast til þess að ef þetta verði samþykkt þá muni heimurinn fylgja með og konum tryggð þessi réttindi um allan heim.
„Vonandi á næstu árum eru lögin þannig að það skiptir ekki máli hvar þú ert að spila. Þetta eru þín réttindi. Það er ofboðslega mikilvægt. Við Gugga [Guðbjörg Gunnarsdóttir landsliðskona innsk. blaðamanns] höfum oft talað um að fyrir okkur að eignast barn og koma til baka þá vorum við búnar að skapa okkur nafn og vera lengi. Fólk veit alveg hverjar við erum og það er kannski auðveldra fyrir okkur að fá samninga en leikmann sem eignast barn 24 ára og er að hefja ferilinn.
Hún segir að hún muni vel eftir símtali frá umboðsmanni síðasta sumar sem hafi verið mjög spenntur fyrir henni en að um leið að hann fékk upplýsingar um að henni fylgdi fjölskylda þá minnkaði hann.
Þetta er pínu svartur stimpill á mann manni finnst ósanngjarnt.
Hún segir að sem dæmi að á hennar heimili vinni þau bæði og það fylgi því alltaf að fá hana á samning að þurfa að aðstoða þau að finna vinnu fyrir maka hennar, Björn Sigurbjörnsson, og leikskóla, skóla eða aðra vistun fyrir börnin. Hjá körlunum þéni þeir oft svo mikið að konur þeirra eru heimavinnandi og því ekki eins mikil vinna sem fylgir því að fá þá á samninga.
„Þetta er pínu svartur stimpill á mann manni finnst ósanngjarnt. Mér finnst íþróttir vera grunnur að góðri samveru fjölskyldna en það hefur ekki verið barnvænt fyrir afrekskonur í íþróttum. Það hefur verið auðveldara fyrir karla því þar eru meiri peningar og þeir geta haldið fjölskyldunni uppi,“ segir Sif.
Styrkja umhverfi í kvennaknattspyrnu
Nefnd hagsmunaaðila í knattspyrnu hjá FIFA (FIFA Football Stakeholders Committee) lagði nýlega til endurbætur sem eiga að styrkja umhverfi kvennaknattspyrnu og umhverfi knattspyrnuþjálfara. Í þeim er, meðal annars, í fyrsta skipti tekið tillit til fæðingarorlofs og stuðnings sem knattspyrnukonur þurfa eftir barnsburð og fæðingu.
Meðal tillagna eru:
- Réttur til fæðingarorlofs í a.m.k. 14 vikur, þar sem leikmaður á rétt á a.m.k. 2/3 af launum sínum samkvæmt samningi á meðan fæðingarorlofi stendur.
- Þegar leikmenn snúa aftur úr fæðingarorlofi er félögum þeirra skylt að aðstoða leikmann að aðlagast að nýju og útvega leikmanni viðeigandi læknishjálp.
- Enginn leikmaður ætti að þurfa að standa illa að vígi gagnvart öðrum vegna þungunar sinnar en þannig megi tryggja betra vinnuumhverfi fyrir konur í knattspyrnu.

KSÍ bíður fullmótaðra tillaga
„Við bíðum eftir því að sjá hvernig þetta lítur fullmótað út. Eins og staðan er núna þá eru þetta tillögur úr nefnd frá FIFA og við erum ekki komin með hvernig þetta verður. Við fögnum að sjálfsögðu þessum hugmyndum og tillögum,“ segir Klara Bjartmars, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, um tillögurnar.
Hún segir að stjórn FIFA eigi eftir að kjósa um þær og það verði gert á fundi þeirra í desember.
„Við eigum svo eftir að sjá hvernig þetta spilast við íslenskan raunveruleika. FIFA er innan Sviss og þar eru réttindi og skyldur gagnvart fæðingarorlofi allt aðrar en þær eru hér landi. Þannig við eigum eftir að sjá hvernig þetta mun líka út endanlega og hvernig þetta samræmist og á við hér á Íslandi,“ segir Klara.
Hún segir að sumum reglugerðum FIFA fylgi skylduákvæði fyrir knattspyrnusamböndin en þau viti ekki meir en hefur komið fram í tilkynningu.
„En það er óhætt að segja að þetta er tímanna tákn og það verður fróðlegt að sjá hvernig endanleg útgáfa mun líta út og hvaða áhrif hún hefur. Bæði hér á Íslandi og annars staðar. En svo er líka spurning hvernig þetta getur litið út þegar reglur eru svo ólíkar í mörgum löndum. FIFA eru alheimssamtök og þeim tilheyra um 200 þjóðir,“ segir Klara.