Lovísa Arnardóttir
lovisaa@frettabladid.is
Sunnudagur 29. nóvember 2020
08.00 GMT

„Þessar til­lögur eru al­gert lág­mark ef miðað er við al­mennan at­vinnu­markað. En við höfum aldrei haft þetta í í­þróttunum,“ segir Sif Atla­dóttir, lands­liðs­kona, sem er sjálf í fæðingar­or­lofi núna í Sví­þjóð þar sem hún býr og spilar með Kristian­stad.

Hún segir að undan­fari þessara til­laga sé tíma­móta­samningur sem körfu­bolta­konur í Banda­ríkjunum gerðu í fyrra um fæðingar­or­lof. Sá var fyrsti sinnar tegundar og gildir í átta ár.

„Þetta var skref deildarinnar til að sýna að þau styðji við þessi réttindi kvenna í í­þróttinni hjá sér. Þetta er samningur sem er manni fyrir­mynd. Það er allt frá fæðingar­or­lofi til fjár­hags­stuðnings til þeirra sem eiga erfitt með að eignast börn. Þá er einnig stuðningur fyrir barna­pössun og alls­konar sem er að finna þar sem við horfum til og þurfum að skoða,“ segir Sif.

Hún segir að samningurinn sem FIFA hefur lagt til og eigi að skoða í desember sé of­boðs­lega mikil­vægur fyrir konur í knatt­spyrnu.

„Ég held að þessi reglu­gerð stað­festi okkar starfs­grein sem það. Ekki bara sem hobbí,“ segir Sif.

Sif hefur spilað yfir 80 A-landsleiki með íslenska landsliðinu í knattspyrnu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hafa þurft að hætta atvinnumennsku

Hún segir að hingað til hafi flestar þeirra kvenna sem hafi á­kveðið að eignast börn þurft að hætta at­vinnu­mennsku þegar að því kom.

„Það gildir ef­laust það sama um knatt­spyrnuna og aðrar í­þróttir fyrir konur að það hefur hingað til verið á­kveðinn dauða­dómur þegar þú hefur orðið ó­létt. Það er bara sama sem merki að þú sért hætt. Það hefur oftast verið þannig að samningur rennur út eða hann ekki endur­nýjaður,“ segir Sif.

Hún segir að þetta sé klár­lega einn liður í því að konur hafi ekki verið eins lang­lífar í í­þróttinni og karl­menn.

„Mér finnst það sorg­legt að hugsa til þess hversu margar hafa hætt um 26 eða 27 ára aldur því það var ekki mögu­leiki fyrir þær að æfa eftir að hafa verið ó­létt,“ segir Sif.

Spurð hvort hún telji að margar konur hafi hrein­lega frestað sínum barn­eignum vegna þess að þær hafi vitað að það væri enda­stöð segir Sif það mjög lík­legt.

„Sú um­ræða hefur komið upp hjá örugg­lega flestum sem eru farnar að huga að barn­eignum að taka eitt ár í við­bót eða klára tíma­bilið eða stefna á ein­hverja keppni og svo sé hægt að huga að barn­eignum. Ég fékk þessa hugsun þegar ég fór að huga að barn­eignum. Ég hugsaði að ég myndi taka Evrópu­mótið 2009 og eftir það væri ég sátt við að hætta. Sú hugsun var þá en svo fór ég í at­vinnu­mennsku og þá hugsaði ég að ég myndi klára hana og fara svo í barn­eignir,“ segir Sif.

Hún segir að hún viti vel til þess að fleiri knatt­spyrnu­konur hafi hugsað á þennan hátt og nefnir sem dæmi lands­liðs­fé­laga sinn Guð­björgu Gunnars­dóttur sem eignaðist tví­bura fyrr á árinu.

„Hún talar um þetta. Hún var að eignast sín fyrstu börn núna 35 ára og hefur talað um að ef hún hefði upp­lifað þetta sem mögu­leika hefði hún gert þetta fyrr því það er auð­veldara að koma aftur 27 ára eða 35 ára. Svo auð­vitað er það þannig að maður veit aldrei hvað gerist. Því lengra sem þú bíður því erfiðara getur verið að verða ó­létt,“ segir Sif.

Hafa þurft að fara á hörkunni

Sif segir að allir punktar til­lögunnar hangi vel saman og segir að hún sé á­nægð að fjallað sé um stuðning við konur þegar þær snúa aftur.

„Þegar konur hafa áður komið til baka þá hefur það verið þannig að þær hafa þurft að sjá um sig sjálfar og taka þetta á hörkunni og keyrt sig á­fram. Núna verður kannski meira komið fram við þetta eins og lang­tíma­meiðsli og betur hugsað til þess að konan þarf að­laga sig og þurfi mögu­lega að vera í ein­hverju fríi eða taka börnin stundum með,“ segir Sif.

Í því til­liti nefnir hún sem dæmi mikil­vægi til­lögu sem fjalli um mikil­vægi þess að leik­maður geti verið með barn á brjósti og gefið því.

„Þetta gerir þetta meira barn­vænt. Það er ekkert hlaupið að því að vera með tveggja eða þriggja mánaða barn og fara svo á tveggja til þriggja klukku­tíma æfingu og geta ekki sinnt því,“ segir Sif.

Hún segir að það komi ef­laust upp margar spurningar þegar til­lögurnar verða teknar fyrir hjá FIFA í desember en vonar að þær verði sam­þykktar.

„Það er mikil­væg þessi hugsun að klúbburinn þurfi að að­laga sig að leik­manninum. Þú ert ekki bara að fá leik­manninn, heldur leik­manninn og lítið barn sem stendur og fellur með móðurinn á þessum tíma­punkti,“ segir Sif.

Sif á tvö börn með eiginmanni sínum, Birni Sigurbjörnssyni, þau Sólveigu og Sigurbjörn Egil.
Myndir/Sif Atladóttir

Samningaviðræður í Svíþjóð

Sif segir að staðan sé á­líka um allan heim og fæðingar­or­lofið sé ekki tryggt neins staðar. Hún segir að í Sví­þjóð, þar sem hún er, sé þó vinna langt á veg komin.

„Sem leik­menn erum við með heildar­samninga sem allir leik­menn eru hluti af. Við erum í samninga­við­ræðum við deildina um betri kjör og þar er verið að búa til stefnu um þungun í samningunum. Það gerir það að verkum að við verðum fyrsta deildin í heiminum sem er með stefnu hvað varðar þungun leik­manna. Það myndi gera sænsku deildina mjög að­laðandi fyrir konur,“ segir Sif.
Sif segir að það sem henni líki einnig við í til­lögunum að gert er ráð fyrir að klúbburinn geti sótt sér leik­mann utan hefð­bundins fé­laga­skipta­glugga. Þá er glugginn í raun opinn þar til að konan, leik­maðurinn, snýr aftur úr fæðingar­or­lofi.
„Annað hvort væri fram­lengt sjálf­krafa því að fé­lagið sæi ekki hag sinn í að missa leik­manninn eða vitandi að þegar leik­maðurinn kemur aftur þá er hún laus. Það er of­boðs­lega stór punktur fyrir fé­lagið. Sér­stak­lega í kvenna­heiminum þá er ekki mikið fjár­magn og það er „bud­geretað“ fyrir 21 leik­mönnum og ef tvær detta út þá er mikill munur að vera bara með 19 leik­menn. Það er rosa­lega mikil­vægt fyrir fé­lögin að það væri ekki að missa leik­menn og þyrfti að borga heldur gæti sótt sér leik­menn,“ segir Sif.

Vonast til þess að konum um allan heim verði tryggð sömu réttindi

Sif segir að hún vonist til þess að það niður­staða fáist í málið í desember þegar er tekið fyrir hjá FIFA. Hún segist vonast til þess að ef þetta verði sam­þykkt þá muni heimurinn fylgja með og konum tryggð þessi réttindi um allan heim.

„Vonandi á næstu árum eru lögin þannig að það skiptir ekki máli hvar þú ert að spila. Þetta eru þín réttindi. Það er of­boðs­lega mikil­vægt. Við Gugga [Guð­björg Gunnars­dóttir lands­liðs­kona inn­sk. blaða­manns] höfum oft talað um að fyrir okkur að eignast barn og koma til baka þá vorum við búnar að skapa okkur nafn og vera lengi. Fólk veit alveg hverjar við erum og það er kannski auð­veldra fyrir okkur að fá samninga en leik­mann sem eignast barn 24 ára og er að hefja ferilinn.

Hún segir að hún muni vel eftir sím­tali frá um­boðs­manni síðasta sumar sem hafi verið mjög spenntur fyrir henni en að um leið að hann fékk upp­lýsingar um að henni fylgdi fjöl­skylda þá minnkaði hann.

Þetta er pínu svartur stimpill á mann manni finnst ó­sann­gjarnt.

Hún segir að sem dæmi að á hennar heimili vinni þau bæði og það fylgi því alltaf að fá hana á samning að þurfa að að­stoða þau að finna vinnu fyrir maka hennar, Björn Sigur­björns­son, og leik­skóla, skóla eða aðra vistun fyrir börnin. Hjá körlunum þéni þeir oft svo mikið að konur þeirra eru heima­vinnandi og því ekki eins mikil vinna sem fylgir því að fá þá á samninga.

„Þetta er pínu svartur stimpill á mann manni finnst ó­sann­gjarnt. Mér finnst í­þróttir vera grunnur að góðri sam­veru fjöl­skyldna en það hefur ekki verið barn­vænt fyrir af­reks­konur í í­þróttum. Það hefur verið auð­veldara fyrir karla því þar eru meiri peningar og þeir geta haldið fjöl­skyldunni uppi,“ segir Sif.

Styrkja umhverfi í kvennaknattspyrnu

Nefnd hags­muna­aðila í knatt­spyrnu hjá FIFA (FIFA Foot­ball Stakehold­ers Commi­ttee) lagði ný­lega til endur­bætur sem eiga að styrkja um­hverfi kvennaknatt­spyrnu og um­hverfi knatt­spyrnu­þjálfara. Í þeim er, meðal annars, í fyrsta skipti tekið til­lit til fæðingar­or­lofs og stuðnings sem knatt­spyrnu­konur þurfa eftir barns­burð og fæðingu.

Meðal til­lagna eru:

  • Réttur til fæðingar­or­lofs í a.m.k. 14 vikur, þar sem leik­maður á rétt á a.m.k. 2/3 af launum sínum sam­kvæmt samningi á meðan fæðingar­or­lofi stendur.
  • Þegar leik­menn snúa aftur úr fæðingar­or­lofi er fé­lögum þeirra skylt að að­stoða leik­mann að að­lagast að nýju og út­vega leik­manni við­eig­andi læknis­hjálp.
  • Enginn leik­maður ætti að þurfa að standa illa að vígi gagn­vart öðrum vegna þungunar sinnar en þannig megi tryggja betra vinnu­um­hverfi fyrir konur í knatt­spyrnu.

Hægt er að kynna sér þær betur hér.

Mynd/KSÍ

KSÍ bíður fullmótaðra tillaga

„Við bíðum eftir því að sjá hvernig þetta lítur full­mótað út. Eins og staðan er núna þá eru þetta til­lögur úr nefnd frá FIFA og við erum ekki komin með hvernig þetta verður. Við fögnum að sjálf­sögðu þessum hug­myndum og til­lögum,“ segir Klara Bjart­mars, fram­kvæmda­stjóri Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands, um til­lögurnar.

Hún segir að stjórn FIFA eigi eftir að kjósa um þær og það verði gert á fundi þeirra í desember.

„Við eigum svo eftir að sjá hvernig þetta spilast við ís­lenskan raun­veru­leika. FIFA er innan Sviss og þar eru réttindi og skyldur gagn­vart fæðingar­or­lofi allt aðrar en þær eru hér landi. Þannig við eigum eftir að sjá hvernig þetta mun líka út endan­lega og hvernig þetta sam­ræmist og á við hér á Ís­landi,“ segir Klara.

Hún segir að sumum reglu­gerðum FIFA fylgi skyldu­á­kvæði fyrir knatt­spyrnu­sam­böndin en þau viti ekki meir en hefur komið fram í til­kynningu.

„En það er ó­hætt að segja að þetta er tímanna tákn og það verður fróð­legt að sjá hvernig endan­leg út­gáfa mun líta út og hvaða á­hrif hún hefur. Bæði hér á Ís­landi og annars staðar. En svo er líka spurning hvernig þetta getur litið út þegar reglur eru svo ó­líkar í mörgum löndum. FIFA eru al­heims­sam­tök og þeim til­heyra um 200 þjóðir,“ segir Klara.

Athugasemdir